Tæplega 300 ára gömul skammbyssa, sem var í eigu breska skipstjórans og landkönnuðarins James Cook, seldist á uppboði í Ástralíu á dögunum fyrir tæplega 220.000 ástralska dali, andvirði um 29,5 milljóna íslenskra króna.

James Cook var fyrsti Evrópubúinn sem vitað er til að hafi stigið á land í austurhlut Ástralíu, en það gerði hann í apríl árið 1770. Þar áður hafði hann kortlagt strandlengju Nýja Sjálands. Ekki er vitað hvort hann bar byssuna þegar hann steig á land í Ástralíu, en áhugi á uppboðinu var engu að síður mjög mikill þar í landi og á Nýja Sjálandi.

Byssan er úr látúni og var smíðuð snemma á átjándu öld af hollenska byssusmiðnum Godefroi Corbau Le Jeune. Handfylli af öðrum persónulegum munum skipstjórans var seld í sama uppboði, en áhuginn var mestur á byssunni. Byssan var í eigu Cook fjölskyldunnar í rúmar tvær aldir, en Ron Walker, fyrrverandi borgarstjóri Melbourne borgar í Ástralíu keypti hana á uppboði í Edinborg árið 2003.