Valitor, Borgun og Kortaþjónustan fá öll hluta af ágóða vegna sölu Visa Europe til Visa Inc. samkvæmt valréttarsamningi við aðaleyfishafa Visa korta í Evrópu. Áður hafði komið fram að Borgun og Valitor ættu rétt á söluágóðanum en Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að þar sem Kortaþjónustan er einnig aðalleyfishafi eigi hún einnig rétt á hluta af ágóðanum.

Nákvæm upphæð á huldu

Enn er á huldu hver nákvæm upphæð söluágóðans verður en það kemur í ljós á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hlutur fyrirtækjanna er reiknaður sem hlutfall af heildarumsvifum þeirra í Evrópu síðastliðin þrjú ár og er útlit fyrir að heildarupphæðin sem rennur í skaut kortafyrirtækjanna þriggja geti hlaupið á milljörðum króna. Til samanburðar greindi Barclays bankinn frá því að hann ætti von á um 400 milljónum breskra punda eða um 74,5 milljarða króna í greiðslu í tengslum við yfirtökuna en hann er á meðal stórra aðalleyfishafa Visa í Evrópu.

Visa Inc. keypti Visa Europe Ltd. 11. nóvember síðastliðinn og nam kaupverðið 21,2 milljörðum evra. Visa og Visa Europe voru aðskilin árið 2007 í aðdraganda skráningar Visa Inc. á markað í Bandaríkjunum. Visa Europe er í eigu yfir 3.000 evrópskra stofnana og höfðu eigendur fyrirtækisins rétt á því að neyða Visa Inc. til að kaupa fyrirtækið innan níu mánaða ef a.m.k. 80% af stjórninni myndu samþykkja það. Samkvæmt ársreikningi Visa Inc. frá árinu 2007 var valrétturinn metinn á 346 milljónir Bandaríkjadollara. Frá þeim tíma hefur verið greint frá valréttinum í ársreikningum Visa Inc. sem áhættuþátt sem gæti kostað það „marga milljarða Bandaríkjadollara“ yrði hann nýttur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .