Staðfest hefur verið að Skeljungur og Síminn séu á leiðinni á Aðallista Kauphallarinnar á næstunni og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti Festi bæst í hópinn.

Mikil gróska er á hlutabréfamarkaði þessa dagana. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að endurreisn íslenska hlutabréfamarkaðarins væri vel á veg komin. Þá sagði Jóhanna Katrín Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, að rými væri fyrir fleiri félög á markaðnum, sem gæti tekið við tveimur til þremur félögum á ári.

Festi keypti á síðasta ári stóran hluta af innlendum eignum Norvik og tók yfir rekstur Kaupáss, sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Nóatúns og Kjarvals, auk ELKO, Intersport, auglýsingastofunnar EXPO og vöruhótelsins Bakkans. Jón Björnsson, forstjóri Festa, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það að fara á markað. „Það hefur ekki verið rætt innan okkar hluthafa, það er einhver möguleiki en eitthvað sem er ekki á stefnuskrá hjá okkur á næstunni.“ Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, telur líklegt að Festi sé með stefnuna á markað. Hann segir þó öllu óljósara að Festi, frekar en hin tvö félögin, fari á markað. „Það er spurning hvernig reksturinn gangi og hvort sé þörf fyrir því að fara á hlutabréfamarkað, eða hvort menn telji sig geta fengið fullnægjandi arðsemi eiginfjár í gegnum áframhaldandi rekstur. Það hefur aðeins hægt á umræðunni um Festi upp á síðkastið og að fyrirtækið sé líklegur kandídat á Aðallista Kauphallarinnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .