Þrír dómarar við Landsrétt hafa verið metnir hæfastir úr hópi átta umsækjenda til að gegna embætti dómara við Hæstarétt.

Endanlegri umsögn dómnefndar um hæfni dómaraefnanna hefur ekki verið skilað en drögum að henni verið skilað til umsækjendanna átta til umsagnar. Fréttablaðið hefur eftir heimildum að þau Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Tómas Magnússon og Ingveldur Einarsdóttir séu þau þrjú sem metin hafa verið hæfust.

Í frægu Excel-skjali dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti landsréttardómara, þegar fimmtán dómarar voru skipaðir í einu, voru þeir Davíð Þór og Sigurður Tómas efstir á blaði. Ingveldur var hins vegar sjötta á listanum.

Tveir aðrir landsréttardómarar, Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir, eru meðal umsækjenda um embættið við Hæstarétt nú. Í eldra mati dómnefndar var Aðalsteini skipar skör hærra en Ingveldi.

Aðrir umsækjendur nú eru prófessorarnir Aðalheiður Jóhannsdóttir og Ása Ólafsdóttir en síðasti umsækjandinn er Guðni Á. Haraldsson lögmaður. Stefnt er að því að dómsmálaráðherra skipi nýjan dómara sem fyrst eftir að dómnefnd hefur lokið störfum.

Sex dómarar hafa sinnt dómstörfum við Hæstarétt frá byrjun október en þá létu Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson af embætti. Í hópi dómara við réttinn nú er ein kona, Gréta Baldursdóttir, en hún er komin á leyfilegan eftirlaunaaldur.