*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Fólk 26. febrúar 2021 11:27

Þrjú ný ráðin til EY

Nýtt sjálfbærniteymi EY á Íslandi skipa Gunnar S. Magnússon, Snjólaug Ólafsdóttir og Hólmfríður K. Árnadóttir.

Ritstjórn
Margrét Pétursdóttir, forstjóri EY á Íslandi, ásamt Snjólaugu Ólafsdóttur, Gunnari S. Magnússyni og Hólmfríði K. Árnadóttur
Aðsend mynd

EY á Íslandi hefur stofnað sjálfbærniteymi með reynslumiklu fólki úr atvinnulífinu. Teymið skipa Gunnar S. Magnússon sem mun leiða framsókn EY á sviði sjálfbærni, dr. Snjólaug Ólafsdóttir sérfræðingur á sviði sjálfbærni í rekstri, stefnumótunar og markmiðasetningar fyrirtækja og stofnana, auk þjálfunar stjórnenda og starfsfólks og Hólmfríður K. Árnadóttir sérfræðingur í grænum fjármálum, jafnréttismálum og stefnumótun. 

Jafnframt mun Margrét Pétursdóttir forstjóri starfa náið með teyminu og þá sér í lagi varðandi sjálfbærniupplýsingagjöf og staðfestingarvinnu auk þess að samþætta sjálfbærni inn í aðra starfsemi EY. 

Teymið mun vinna þvert á önnur svið EY og mynda sterk tengsl við alþjóðleg CCaSS (e. Climate Change and Sustainability Services) teymi EY, sérstaklega á Norðurlöndunum. Mikill vöxtur hefur verið í sjálfbærniráðgjöf og staðfestingarvinnu hjá EY á alþjóðavísu vegna aukins þunga á þennan málaflokk hjá fyrirtækjum og stofnunum og hefur EY á að skipa fjölbreyttum hópi sérfræðinga á sviði sjálfbærni um allan heim sem fer stöðugt vaxandi að sögn Margrétar, forstjóra EY. 

Gunnar S. Magnússon starfaði áður hjá Íslandsbanka en þar leiddi hann setningu nýrrar sjálfbærnistefnu og stýrði lykilverkefnum á sviði sjálfbærni svo sem í tengslum við útgáfu á grænum skuldabréfum. Áður sinnti Gunnar fjárfestatengslum fyrir bankann. Gunnar starfaði á árunum 2012-2017 við tæknilega fjármálaráðgjöf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC og þar áður starfaði hann við fjármálaráðgjöf hjá framkvæmdastjórn ESB í Brussel.

Gunnar er stjórnarmaður í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og er með MSc í Evrópskri stjórnmála- og hagfræði frá London School of Economics (UK), BA próf í Alþjóðatengslum frá Gonzaga University (USA) og er löggiltur verðbréfamiðlari. 

Snjólaug Ólafsdóttir rak áður fyrirtækið, Andrými sjálfbærnisetur, sem veitti fræðslu- og ráðgjafaþjónustu í sjálfbærni og loftslagsmálum. Þar lagði hún áherslu á leiðtogaþjálfun í sjálfbærni, sjálfbærnistefnumótun og markmiðasetningu og fræðslu varðandi sjálfbærni fyrir stjórnendur, sérfræðinga og annað starfsfólk. Áhersla hennar hefur verið að aðstoða við breytingar í átt til sjálfbærni á uppbyggilegan og styðjandi hátt.

Snjólaug starfaði áður hjá  Orku Náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem hún hefur kennt sjálfbærni við Tækni og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.  Snjólaug var ráðgjafi við gerð loftlagsmælis Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð auk þess sem hún var ritari vísindanefndar um loftlagsáhrif á Íslandi. Snjólaug er umhverfisverkfræðingur með doktorsgráðu í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands og er menntaður markþjálfi. 

Hólmfríður K. Árnadóttir býr yfir fjölbreyttri reynslu á sviði rekstrar, verkefnastjórnunar, stjórnunar og stefnumótunar. Hólmfríður Kristín er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og  M.Sc. gráðu í fjármálum og rekstri fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á græn skuldabréf. Hún hefur mikla reynslu á sviði verkefnastjórnunar, rekstrar, stjórnunar og stefnumótunar. Hólmfríður starfaði við verkefnastýringu í markaðs- og vöruþróun hjá Nova og fyrir það starfaði hún á auglýsingastofunni Jónsson & Le‘macks, nú Aton.JL.