Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum. Þá hefur Ingólfur Snorri Kristjánsson verið ráðinn forstöðumaður skuldabréfastýringar, Helga Óskarsdóttir sjóðsstjóri í Skuldabréfastýringu og Birgir Ottó Hillers lögfræðingur.

Í tilkynningunni segir Haraldur Örn Ólafssson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða að ráðningarnar séu mikill fengur fyrir fyrirtækið. „Hjá félaginu starfar öflugur hópur sérfræðinga og mun þessi ráðning styrkja þá liðsheild enn frekar. Framundan eru mörg spennandi verkefni þar sem þau munu gegna lykilhlutverki,“ segir Haraldur.

Ingólfur Snorri Kristjánsson
Ingólfur Snorri Kristjánsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ingólfur Snorri Kristjánsson, hefur verið ráðinn forstöðumaður skuldabréfastýringar Íslandssjóða. Undanfarin átta ár hefur hann starfað hjá markaðsviðskiptum Arion banka og forverum hans. Síðustu ár hefur hann starfað við miðlun á skuldabréfum til fagfjárfesta en þar áður við gjaldeyris- og afleiðumiðlun. Á árunum 2003-2007 starfaði hann hjá eignastýringu Íslandsbanka og hjá forvera Íslandssjóða, Rekstrarfélagi Íslandsbanka, þar sem hann gegndi starfi sjóðsstjóra erlendra hlutabréfasjóða. Ingólfur Snorri hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og  er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Helga Óskarsdóttir
Helga Óskarsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Helga Óskarsdóttir, hefur verið ráðin sjóðsstjóri í skuldabréfastýringu. Helga hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans frá árinu 2006. Hún hefur lengst af starfað við verðbréfamiðlun þar sem hún hefur miðlað skuldabréfum til fagfjárfesta og haft umsjón með skuldabréfaútgáfum. Áður starfaði hún í afleiðudeild þar sem hún sá um vaxtaafleiður. Helga hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og  er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Birgir Ottó Hillers
Birgir Ottó Hillers
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Birgir Ottó Hillers, hefur verið ráðinn lögfræðingur Íslandssjóða. Birgir hefur frá árinu 2014 starfað í Regluvörslu Íslandsbanka. Þar áður starfaði hann um fimm ára skeið hjá Fjármálaeftirlitinu á verðbréfasviði og við rannsóknir og vettvangs- og verðbréfaeftirlit. Birgir Ottó er með meistaragráðu frá lagadeild Háskólans í Reykjavík og B.A. gráðu frá lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann er með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi.