*

þriðjudagur, 15. október 2019
Fólk 27. september 2018 12:58

Þrjú ný til Kolibri

Kolibri hefur ráðið þau Guðfinn Sveinsson, Skúla Arnlaugsson og Björk Brynjarsdóttur í ráðgjafateymi sitt.

Ritstjórn
Guðfinnur Sveinsson, Skúli Arnlaugsson og Björk Brynjarsdóttir hafa öll hafið störf hjá Kolibri.
Aðsend mynd

Þrír nýir sérfræðingar, Guðfinnur Sveinsson, Skúli Arnlaugsson og Björk Brynjarsdóttir, hafa gengið til liðs við nýsköpunarfyrirtækið Kolibri. Starfsmannafjöldi fyrirtækisins hefur rúmlega tvöfaldast á tveimur árum en hjá Kolibri starfa í dag yfir 30 hönnuðir, ráðgjafar og hugbúnaðarsérfræðingar.

Ráðningarnar eru liður í frekari uppbyggingu sérhæfðs ráðgjafateymis Kolibri sem aðstoðar fyrirtæki við nýsköpun út frá hugmyndafræði notendamiðaðra hönnunaraðferða (e. design thinking) segir í fréttatilkynningu.

Guðfinnur Sveinsson gekk til liðs við Kolibri fyrr á árinu sem teymisþjálfari og stjórnendaráðgjafi. Hann mun starfa náið með stjórnendum fyrirtækja við úrlausn flókinna viðfangsefna ásamt því að leiða þróunarteymi skipað sérfræðingum Kolibri og viðskiptavina þess.

Guðfinnur starfaði sem teymisþjálfari og vörustjóri hjá Plain Vanilla en síðustu ár hefur hann starfað sem sjálfstæður Agile og stjórnendaráðgjafi og m.a. unnið með fyrirtækjum á borð við WOW air og Tempo.

Guðfinnur hefur tekið að sér stundakennslu í MBA námi og námskeiðum í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands. Þá hefur hann einnig haldið fyrirlestra um stjórnendaráðgjöf og teymisvinnu á ráðstefnum hérlendis sem erlendis. Guðfinnur hefur einnig lært óperusöng og má því búast við að hann gleðji starfsmenn Kolibri og gesti á skrifstofu fyrirtækisins með söng.

Skúli Arnlaugsson hefur einnig gengið til liðs við Kolibri sem teymisþjálfi og framleiðandi. Hann leiðir stórt teymi sérfræðinga hjá Kolibri ásamt því sem hann stýrir teymisvinnu hjá viðskiptavinum félagsins.

Skúli vann um árabil hjá Azazo (nú Gagnavarslan), þá sem hugbúnaðarsérfræðingur og síðar teymisþjálfi og verkefnastjóri. Þar kom hann að hönnun, þróun og smíði hugbúnaðarlausna sem snéru m.a. að bestun og rafvæðingu ferla með pappírslausum viðskiptaháttum, viðskiptavinum og atvinnurekendum til hagsbóta.

Hann hefur einnig um árabil starfað sem aðstoðarkennari við Háskólann í Reykjavík og hefur verið leiðbeinandi nemanda í BS verkefnum þeirra. Þessu til viðbótar er Skúli mjög efnilegur körfuboltaleikmaður og er fremstur á meðal jafningja í þeim málum hjá Kolibri.

Björk Brynjarsdóttir hefur þá einnig hafið störf hjá Kolibri. Björk mun leiða teymi sérfræðinga frá Kolibri og viðskiptavina þess. Björk er nýkomin til landsins eftir að hafa lokið leiðtoga- og nýsköpunarnámi við Kaospilot skólann í Árósum.

Síðastliðin ár hefur Björk komið inn sem teymisráðgjafi fyrir sprotafyrirtækið Bloodlink í Kaupmannahöfn og samtökin Nyanga Yethu í Höfðaborg í Suður-Afríku. Hún hefur þar að auki leitt skipulagsþróun hjá þekkingarsamtökum (e. learning organisations) í bæði Danmörku og Suður-Afríku og lóðsað vinnustofur fyrir nýbreytni í menntamálum í Barcelona.

Björk var í hópi stofnenda blær.is árið 2014, sem var valinn athyglisverðasti vefurinn á Íslensku vefverðlaununum það árið.
Til viðbótar því að vera hæfileikaríkur teymisþjálfari, þá er hún liðtækur plötusnúður og mun vafalaust fá tækifæri til að þeyta skífurnar fyrr en síðar.

Stór verkefni framundan í stafrænni umbreytingu

Ólafur Nielsen, framkvæmdastjóri Kolibri segir teymisþjálfun ávallt hafa verið mikilvægan þátt í samstarfi okkar við fyrirtæki.
„Í allri vöruþróun er styrkur og gæði teymis lagður að jöfnu við styrk og gæði þeirrar vöru sem verið er að þróa. Því leggjum við mikla áherslu á að halda úti sterkum hópi teymisþjálfara,“ segir Ólafur.

„Við erum heppin að fá Guðfinn, Björk og Skúla til liðs við okkur í Kolibri. Verkefnin sem bíða okkar og viðskiptavina okkar í stafrænni umbreytingu eru stór og mikil og það er því mjög mikill styrkur í því að fá svo öflugt fólk til liðs við okkur.“