*

laugardagur, 4. desember 2021
Fólk 25. október 2021 15:20

Þrjú ný til Kolofon

Hönnunarstofan hefur ráðið til sín Rúnu Dögg Cortez, Gunnar Sturlu Ágústuson og Bergþóru Jónsdóttur.

Ritstjórn
Rúna Dögg Cortez, Gunnar Sturla Ágústuson og Bergþóra Jónsdóttir
Anna Kristín Óskarsdóttir

Hönnunarstofan Kolofon, sem sérhæfir sig í mörkun, hönnun og forritun, hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn, Rúnu Dögg Cortez, Gunnar Sturlu Ágústuson og Bergþóru Jónsdóttur.

Rúna Dögg Cortez mun halda utan um verkferla og almenna umsjón á stofunni. Rúna er með yfir 20 ára reynslu í markaðsmálum og skapandi verkefnum. Hún starfaði áður á auglýsingastofunni Brandenburg, þar sem hún var viðskiptastjóri, stafrænn stjórnandi og sat í framkvæmdastjórn stofunnar. Þar áður var hún framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar.

Gunnar Sturla Ágústuson kemur til starfa sem forritari. Hann er með Bsc. gráðu í tölvunarfræði frá HÍ. Auk þess að hafa unnið að sjálfstæðum verkefnum, hefur hann verið forritari og teymisstjóri hjá Klöppum frá árinu 2015, þar til hann hóf störf á Kolofon. Þar að auki er Gunnar lunkinn kaffi- og kokteilabarþjónn, hæfileikar sem eru sagðir þegar hafa komið sér vel á stofunni.

Bergþóra Jónsdóttir kemur inn í hönnunarteymi stofunnar, með BA gráðu í grafískri hönnun frá LHÍ og MA í hönnun frá Emily Carr í Vancouver. Bergþóra hefur starfað hjá auglýsingastofunni Jónsson & Le'macks, Maxomedia í Sviss, hönnunarstofunni House9 Design í Montréal og unnið fjölda verkefna sem sjálfstæður hönnuður. Sýning Bergþóru, Systralag II, var haldin 2020 þar sem hún upphefur konur af ólíkum bakgrunni og baráttu þeirra til jafnréttis.

„Á tæpum fjórum árum, síðan stofan var stofnuð, hafa verkefnin verið krefjandi og gífurlega spennandi,“ segir Samúel Þór Smárason, forritari og einn stofnenda stofunnar, í fréttatilkynningu.

„Hvort sem verkefnin eru hönnunar- eða forritunarlegs eðlis, leggjum við mikið í gott og náið samstarf með viðskiptavininum. Markmið okkar í hverju verkefni er að skila vönduðu handverki, og það getum við aðeins gert með góðu starfsfólki. Þess vegna erum við gífurlega ánægð með að fá þessi þrjú í hópinn okkar.“