Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir og Örn Viðar Skúlason voru nýlega ráðin sem fjárfestingastjórar hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Ólöf Vigdís starfaði hjá Lyfjaþróun ehf. í tvö ár þar sem hún hafði umsjón með samningum og einkaleyfum fyrirtækisins. Hún starfaði í átta ár hjá Einkaleyfastofunni þar sem hún gegndi ýmsum störfum m.a. lögfræði- og stjórnunarstörfum. Árið 2012 hóf Ólöf störf hjá Háskóla Íslands sem lögfræðingur á vísinda- og nýsköpunarsviði og sérfræðingur Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala í hugverkarétti auk þess að starfa sem framkvæmdastjóri Tæknigarðs og Tækniþróunar. Hjá Háskóla Íslands vann Ólöf Vigdís að hagnýtingu nýsköpunarverkefna og samningum, auk þess að koma að stofnun og vinna með sprotafyrirtækjum skólans.

Ólöf Vigdís útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2001, öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi 2004, lauk námi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum 2006 og er að ljúka MS námi í verkefnisstjórnun frá Háskóla Íslands.

Örn Viðar hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja. Hann var framkvæmdastjóri markaðssviðs og aðstoðarforstjóri SÍF samstæðunnar á árunum 2000 – 2004 og leiddi m.a. stefnumótun og skipulagsmál. Þá sat hann stjórnum nokkurra dótturfyrirtækja SÍF erlendis. Örn Viðar var framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi SÍF, hjá Iceland Seafood frá 2004 – 2005. Frá árinu 2005 til 2008 var Örn Viðar forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar og fjárfestinga hjá SPRON en deildin hafði með almenn kaup og sölu fyrirtækja að gera og stýrði stóru fasteignaverkefni í Berlín. Á sama tíma sat Örn í stjórnum nokkurra dótturfyrirtækja SPRON. Frá 2008 til 2017 var Örn framkvæmdastjóri Proact heildverslunar.

Örn Viðar lauk prófi í Hagverkfræði frá Tækniháskólanum í Berlín og meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík.

Þá hefur Friðrik Friðriksson verið ráðinn fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs. Friðrik á fjölbreyttan starfsferil að baki og lengst af starfað við framkvæmdastjórn í fyrirtækjum, m.a. IBM á Íslandi, Skrifstofuvélum-Sund og Skjánum ehf. Friðrik hefur einnig unnið við endurskipulagningu fyrirtækja, samruna og sölu þeirra ásamt almennri rekstrarráðgjöf. Þá hefur Friðrik einnig setið í ýmsum stjórnum, meðal annars sem stjórnarformaður CCP hf. og stjórnarformaður MATÍS ohf. Hann var auk þess stjórnarformaður AVS sjóðsins. Friðrik tók nýlega við stjórnarformennsku í Vaðlaheiðargöngum hf.

Friðrik hefur lokið viðskiptafræðiprófi Cand Oecon frá Háskóla Íslands, MA prófi í hagfræði frá Virgina Tech og MBA prófi frá sama háskóla.