*

föstudagur, 21. janúar 2022
Fólk 13. október 2021 10:22

Þrjú ný til Samkaupa

Bryndís Björk Ásmundsdóttir, Hjörtur Benjamín Halldórsson og Snorri Páll Blöndal hafa verið ráðin til Samkaupa.

Ritstjórn
Bryndís Björk Ásmundsdóttir, Hjörtur Benjamín Halldórsson og Snorri Páll Blöndal.
Aðsend mynd

Samkaup hafa ráðið Bryndísi Björk Ásmundsdóttur, Hjört Benjamín Halldórsson og Snorra Pál Blöndal, þrjá nýja sérfræðinga, á skrifstofu sína í vörustýringu, greiningum og reikningshaldi. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu. 

Bryndís Björk Ásmundsdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur í greiningum. Hún starfaði áður sem verkefnastjóri virðisstýringar hjá A4 en þar á undan var hún hjá Vodafone, síðast sem sérfræðingur í virðisstýringu. Bryndís er með B.Sc. í sálfræði og MBA frá Háskóla Íslands. Hún hefur sérstakt dálæti á Excel og situr í stjórn faghóps Stjórnvísis um Excel. Hún mun koma til með að starfa þvert á svið Samkaupa og leiða vegferð félagsins inn í gagnadrifinn rekstur, þar sem stefnan er að hámarka nýtingu félagsins á þeim upplýsingum og gögnum sem það býr yfir.

Hjörtur Benjamín Halldórsson er nýr sérfræðingur í vörustýringu en hann starfaði áður sem sérfræðingur í innkaupum hjá Ölgerðinni. Þar á undan starfaði hann á innkaupasviði hjá Bauhaus. Hjörtur er með B.S. í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og einkaflugnámspróf frá Flugskóla Íslands.

Snorri Páll Böndal hefur verið ráðinn verkefnastjóri reikningshalds. Hann starfaði áður hjá Deloitte sem aðstoðarmaður í deild viðskiptalausna. Snorri Páll er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann mun koma til með að stýra frekari nútíma- og sjálfvirknivæðingu reikningshalds. 

Stikkorð: Samkaup