*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Fólk 15. nóvember 2021 13:05

Þrjú ný til Sensa

Sensa hefur ráðið til sín Júlíu Pálmadóttur Sighvats, Jörund Kristinsson og Ástu Nínu Benediktsdóttur en sú síðastnefnda verður fjármálstjóri.

Ritstjórn
Ásta Nína Benediktsdóttir hér á vinstri hönd ásamt Júlíu Pálmadóttur Sighvats og Jörundi Kristinssyni
Aðsend mynd

Upplýsingatæknifyrirtækið Sensa hefur ráðið til sín þrjá starfsmenn, þar á meðal nýjan fjármálastjóra. Síminn seldi nýlega Sensa til norska fyrirtækisins Crayon Group. Í fréttatilkynningu segir að „með nýju eignarhaldi hefur snertiflötur starfsmanna gagnvart þróun nýrra lausna vaxið mikið“.

Ásta Nína Benediktsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri Sensa en hún tekur við stöðunni af Dúnu Árnadóttur sem færir sig yfir í mannauðsstjórnun sem og önnur rekstrartengd verkefni.

Ásta Nína hefur unnið fyrir Símann og félög tengd Símanum undanfarin 20 ár. Þar hefur hún komið að fjölmörgum verkefnum á sviði fjármála og stefnumótunar, bæði sem forstöðumaður og sérfræðingur. Hún var síðast sérfræðingur í stefnumótun og stjórnun og kom þar meðal annars að sölu Sensa sem og sölu Mílu.

Ásta Nína er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands. Þá er hún með próf í viðskiptafræði frá sama skóla af reikningshalds- og endurskoðunarsviði.

Júlía Pálmadóttir Sighvats hefur gengið til liðs við teymi Sensa í ferla- og upplýsingastjórnun. Júlía kemur frá Byko þar sem hún var forstöðumaður viðskiptaþróunar og tæknilegra innviða. Áður var hún deildarstjóri upplýsingatækni hjá LÍN (núna Menntasjóður námsmanna) og hefur starfað sem stjórnandi, verkefnastjóri, hópstjóri og forritari innan einkageirans og hins opinbera.

Júlía kemur inn í ráðgjafarteymi Sensa sem aðstoðar við innleiðingu á Microsoft 365, þ.m.t. Microsoft Viva. Þá mun hún sinna ráðgjöf og verkefnastjórnun í tengslum við umbreytingu í rekstrarumhverfi og stafrænni þróun hjá viðskiptavinum.

Júlía er með BSc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Skövde, Svíþjóð. Meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskóla Íslands, 60 ECTS diplómanámi á meistarastigi í jákvæðri sálfræði og hefur lokið viðurkenndu markþjálfanámi frá Profectus. Einnig stundar hefur hún lokið miniMBA náminu „Leiðtoginn og stafræn umbreyting“ sem kennt er hjá Akademias.

Jörundur Kristinsson hefur verið ráðinn hópstjóri tækniborðs Sensa. Jörundur hefur margra ára reynslu sem hópstjóri í upplýsingatækni, þar sem hann hefur stýrt sérfræðingum er sinna notendaþjónustu fyrirtækja.

Jörundur er með BSc. í viðskiptafræði frá Auburn University at Montgomery og BSc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.