Rekstur þriggja rótgróinna íslenskra iðnfyrirtækja sameinaðist 1. nóvember sl. Um er ræða Trésmiðjuna Börk, Gluggasmiðjuna Selfossi og glerverksmiðjuna Samverk og mun hið sameinaða fyrirtæki starfrækja fjórar verksmiðjur. Nú þegar er framleiðsla á Akureyri, Hellu og Selfossi, með söluskrifstofu í Kópavogi. Til viðbótar mun bætast við ein verksmiðja á höfuðborgarsvæðinu. Áætluð velta sameinaðs fyrirtæki verður allt að 4 milljarðar fyrir árið 2023. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvert nafn hins sameinaða fyrirtækis verður, að svo stöddu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að áhersla hins sameinaða fyrirtækis sé að framleiða eins umhverfisvæna glugga, hurðir og gler og hægt sé á Íslandi. Innlend framleiðsla, með endurnýjanlegri orku, verði því lykillinn að framtíðarsýn félagsins. Til að ná þessum markmiðum verði allar leiðir notaðar til að minnka kolefnisspor fyrirtækisins, í trausti þess að byggingamarkaðurinn, eins og aðrir markaðir, verði mjög meðvitaður um kolefnisspor sinna birgja í framtíðinni.

„Það er mjög spennandi að þessi rótgrónu iðnfyrirtæki séu að sameinast, en rekstrarsaga þeirra allra er mjög löng. Öll eru þau stofnuð fyrir 1970 og eru því öll orðin yfir 50 ára gömul,  með mikla reynslu og þekkingu innanborðs. Þessi fyrirtæki eru mikilvæg í íslenskri iðnsögu og framleiða vörur sem eru sérstaklega þróaðar með íslenskum byggingaraðilum, fyrir innlendan markað. Nú þegar þessi sameining hefur orðið, mun styrkur sameinaðs fyrirtækis verða mikill og tryggir áframhaldandi framleiðslu og þróun á Íslandi. Það eykur afhendingaröryggi og styttir afgreiðslutíma, ásamt því að kolefnisspor íslenskra bygginga verður minna með notkun endurnýjanlegrar orku við framleiðslu. Framleiðsla sem þessi er mjög orkufrek, má þar sérstaklega nefna herslu á gleri,“ segir Kristján Ragnar Ásgeirsson, fjármálastjóri hins nýja fyrirtækis.

„Hið sameinaða fyrirtæki verður með fjölbreytt vöruúrval og betri þjónustu, enda verður í einu fyrirtæki bæði þjónustað og framleitt; flestar tegundir glers, gluggar og hurðir úr timbri, áli og áltré. Einnig svalalausnir úr áli og gleri, gangalokanir fyrir fjölbýlishús, gróðurhús úr timbri og nýjasta viðbótin er innflutningur á ítölskum innréttingum fyrir verktaka. Nú þessa dagana er verið að auglýsa eftir framkvæmdastjóra fyrir sameinað fyrirtæki,“ segir í fréttatilkynningu.