*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 24. nóvember 2020 07:16

Þrjú stef nýrrar stefnu Haga

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir frá þremur stefnumótandi þemum sem munu marka starf Haga á næstu misserum.

Sveinn Ólafur Melsted
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, gætir vel að sóttvörnum á tímum kórónuveirufaraldursins.
Gígja Einars

Í fjárfestakynningu sem kynnt var í kjölfar birtingar á fyrsta árshlutauppgjöri Haga eftir að Finnur Oddsson, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði viðskiptablaðsins, tók við stjórnartaumunum boðaði hann breyttar áherslur sem eru m.a. afrakstur stefnumótunarvinnu síðustu vikna. Í því sambandi hefur hann dregið fram þrjú stefnumótandi þemu sem munu marka starf Haga á næstu misserum.

„Fyrsta þemað felst í því að þrengja rammann utan um starfsemi okkar og einbeita okkur enn frekar að því sem við kunnum vel og getum hámarkað ávinning viðskiptavina af okkar þjónustu," útskýrir Finnur og lýsir því að horft sé lóðrétt til virðiskeðjanna í kringum dagvöruverslun og eldsneyti. „Í þessu felst einnig ákveðin leiðsögn um hvað við ætlum ekki að gera og í því sambandi höfum við skilgreint bæði Útilíf og Reykjavíkur Apótek sem rekstrareiningar til sölu. Við teljum kröftum okkar betur varið í önnur verkefni, nær okkar kjarnastarfsemi."

Annað þemað feli í sér að unnið verði meira þvert á samstæðuna með það að markmiði að gera heildina sterkari en summu eininganna. „Það verður áfram þannig að hver rekstrareining mun njóta töluverðs sjálfstæðis, en við viljum gæta þess að sjálfstæðið verði ekki á kostnað heildarinnar," segir Finnur. „Við sjáum áhugaverð tækifæri í að skilgreina betur staðsetningu vörumerkja Haga m.t.t. þeirrar þjónustu eða virðis sem við veitum viðskiptavinum á hverjum stað fyrir sig. Að sama skapi viljum við ná fram ávinningi í samstarfi þvert á samstæðu um ákveðna málaflokka sem tengjast m.a. vöruhúsum, heildstæðri nálgun á fasteignaverkefni og síðast en ekki síst verkefnum sem lúta að upplýsingatækni og stafrænni þróun."

Þriðja þemað tengist svo því hvernig Hagar og dótturfélög tala við viðskiptavini og skilji þarfir þeirra. „Þar viljum við byggja upp virkara samtal og segja meira frá starfsemi okkar almennt og því sem við gerum fyrir neytendur, samfélagið og umhverfið. Slíkt samtal þarf að vera tvíhliða til að við skiljum þarfir okkar viðskiptavina betur og getum um leið lagað þjónustu okkar hraðar að þeim. Eðli máls samkvæmt þá verður þetta ekki gert af mikilli skilvirkni nema með upplýsingatækni," segir Finnur.

Finnur nefnir að þó svo að fyrrgreindar áherslur hljómi nokkuð einfaldar, þá feli þær í sér talsverðar breytingar í starfsemi Haga sem kynntar verði nánar eftir því sem þeim vindur fram.

Nánar er rætt við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Hagar Finnur Oddsson