Grettir Gautason, Ásdís Sigurbergsdóttir og Eydís Blöndal hafa verið ráðin til samskiptafélagsins Aton.JL. Grettir og Ásdís koma inn í ráðgjafastörf og Eydís sem texta- og hugmyndasmiður. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Grettir starfaði áður í almannatengslum hjá H:N markaðssamskiptum og sem sölu- og verkefnastjóri hjá vefmiðlinum Kjarnanum. Grettir er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands auk þess sem hann er að ljúka MA-námi í almannatengslum og markaðssetningu við Universidade Fernando Pessoa í Portúgal.

Ásdís starfaði áður sem ráðgjafi á stefnumótunar- og fjármálasviði Capacent á Íslandi og sem sérfræðingur á stefnuskrifstofu í forsætisráðuneytinu, í tímabundnum verkefnum á sviði stefnumótunar. Síðustu ár hefur Ásdís einnig tekið að sér aðstoðarkennslu við stjórnmálafræðideild HÍ. Ásdís er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og mun í vor ljúka MA gráðu í opinberri stjórnsýslu.

Eydís er með BA gráðu í heimspeki með hagfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út þrjár ljóðabækur og ásamt því verið í stórum sem smáum verkefnum fyrir hin ýmsu fyrirtæki, meðal annars JÖMM og Siðmennt.

Sig Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL:

„Með fjölgun verkefna og með aukinni aðsókn í þjónustu okkar hjá Aton.JL höfum við fengið þessa öflugu viðbót í starfsmannahópinn okkar. Grettir, Ásdís og Eydís koma öll með þekkingu og bakgrunn sem bætir við getu okkar en styrkir einnig fjölbreytta sérþekkingu innan fyrirtækisins. Með þessari viðbót getum við sérsniðið enn betur teymi utan um ólíkar þarfir viðskiptavina okkar og aukið við breidd þeirra verkefna sem við tökum að okkur."