Hugmyndin að Sidekick Health smáforritinu, eða appinu, kviknaði hjá Tryggva Þorgeirssyni lækni. Í fyrstu er appið hugsað fyrir starfsfólk fyrirtækja og var Reiknistofa bankanna fyrsta fyrirtækið til að bjóða starfsmönnum sínum upp á appið. Innan tveggja ára er stefnt að því að appið verði lækningatæki og læknar geti ávísað því til sjúklinga. Sidekick Health er meðal annars í samstarfi við Harvard-háskóla, MIT, Massachusetts General-sjúrahúsið, Karolinska-sjúkrahúsið.

SidekickHealth er nýtt smáforrit, eða app, sem var nýlega gefið út á App Store og Google Play og er því bæði hægt að nota það í Apple og Android snjalltækjum. Fyrirtækið var stofnað af læknunum Tryggva og Sæmundi Oddssyni.

Tryggvi segir að langvinnir lífstílstengdir sjúkdómar, svo sem offita, sykursýki 2 og hjartasjúkdómar, valdi 86% af dauðsföllum í Evrópu og um 68% dauðsfalla á heimsvísu. Hann segir að rekja megi um 70 til 80%  af öllum heilbrigðiskostnaði í Evrópu til langvinnra lífstílstengdra sjúkdóma. Þetta séu sjúkdómar sem hafi tengsl við mataræði, hreyfingu, streitu og þar fram eftir götunum.

„Sem læknir var ég stöðugt að fást við afleiðingar af lífsstílstengdum sjúkdómum," segir Tryggvi. „Ég ákvað að venda kvæði mínu kross og vinna við að fyrirbyggja þessa sjúkdóma frekar en að fást við afleiðingarnar. Ég tók því mastersgráðu í lýðheilsuvísindum við Harvard-háskóla og það má segja að þá hafi hugmyndin að Sidekick Health kviknað."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .