Sprotafyrirtækið: „Ekki banka“ er eitt af þeim 10 teymum sem valin voru í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík nú á dögunum. Viðskiptahraðallinn fer nú af stað í sjöunda sinn og hefur þann tilgang að hjálpa sprotafyrirtækjum að þróa viðskiptahugmyndir sínar. Hraðallinn var stofnaður árið 2012 og er samstarfsverkefni Icelandic Startup og Arion banka. Hann er hluti af alþjóðlegu tengslaneti viðskiptahraðla sem nefnist Global Accelerator Network, GAN. Arion banki fjárfestir í fyrirtækjunum og tekur 6% hlut fyrir 2,4 milljónir í hverju fyrirtæki.

„Þetta er tíu vikna ferli og það eru mentorar sem hjálpa og leiðbeina fyrirtækjunum. Það eru um áttatíu mentorar í prógramminu. Sprotafyrirtækin sem eru hjá okkur geta myndað tengslanet og kynnst fjárfestum. Þau fá auk þess endurgjöf á viðskiptamódel sitt,“ segir Edda Konráðsdóttir, verkefnastjóri Startup Reykjavík.

Ekki banka er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að hjálpa einstaklingum að hagnýta eigin fjárhagsupplýsingar með það að leiðarljósi að spara peninga en jafnframt að nýta þá betur. Stofnandi fyrirtækisins er Brynjólfur Ægir Sævarsson og segir hann að hugmyndin hafi kviknað smám saman eftir að hann lét af störfum hjá Landsbankanum. Hann starfaði þar sem útibússtjóri í sjö ár og síðar sem forstöðumaður viðskiptaþróunar.

„Startup Reykjavík er góður kostur og ákveðinn stökkpallur. Það er viðurkenning að vera eitt af fyrirtækjunum sem komust í gegn. Ég ákvað að slá til og sækja um og er viss um að þetta muni hjálpa til við að láta þennan draum verða að veruleika. Fá fólk að borðinu sem getur gefið sér tímann í að hjálpa við þetta,“ segir Brynjólfur en í ár bárust alls 270 umsóknir og hafa þær aldrei verið fleiri.

Sambland af vörum og snjalltækni

„Það sem við munum bjóða upp á verður nokkurs konar sambland af fjármálavörum og fjármálaþjónustu. Við munum vera með leiðir til að hjálpa fólki að fara betur með peningana sína og spara. Við sjáum fyrir okkur að við verð- um valkostur fyrir utan þá sem eru nú á markaðnum og munum nýta okkur tækni og bjóða vörurnar á hagstæðum kjörum,“ segir Brynjólfur

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast bdf-útgáfu blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .