Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Medilync hefur að undanförnu þróað og hannað tæki sem er ætlað að halda og safna saman upplýsingum um lyfjagjöf sykursjúkra. Fengu eigendur fyrirtækisins nýlega boð frá Microsoft um að vinna með tölvunarverkfræðingum fyrirtækisins að hugbúnaðinum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Tækið sem er í þróun hjá Medilync gengur undir nafninu Insulync og mælir blóðsykur auk þess að gefa insúlín. Er svo hægt að geyma upplýsingar um insúlíngjafir og blóðsykursmælingar, sem eru svo sendar í miðlæga gagnageymslu í skýinu Cloudlync. Getur notandinn svo nálgast sín gögn í gegnum vafra og gefið öðrum aðgang að sínum gögnum, svo sem aðstandanda eða lækni.

Forsvarsmenn Medilync munu hitta Scott Guthrie, aðstoðarforstjóra Microsoft Cloud & Enterprise, í janúar í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Seattle. „Það sem við erum að fara að gera með Microsoft er að við erum að fara að vinna að þeim hluta sem tengir tækið við skýið þeirra,“ segir Sigurjón í samtali við Fréttablaðið.