Þau lög sem Fjármálaeftirlitið telur að varði fjármálaþjónustu, ásamt öllum reglum, reglugerðum og leiðbeinandi tilmælum sem gefin hafa verið út um fjármálamarkaðinn hér á landi, eru samtals 618 þúsund orð að lengd samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins.

Sú spurning vaknar hvort reglubyrði geti hamlað innkomu nýrra aðila á fjármálamarkaðinn. Hópur fólks vinnur nú að stofnun nýs viðskiptabanka hér á landi, Heimilisbankans. Benedikt Sigurðarson, meðlimur í undirbúningshópnum, segir að það sé mikið verk að fylgja öllum lögum og reglum sem gilda um viðskiptabanka.

Því hafi hópurinn óskað eftir stuðningi og lögfræðiráðgjöf frá hinum þýska Sparkasse, og er nú beðið eftir staðfestingu þess efnis að undirbúningsfélag Heimilisbankans geti tekið á móti þeim stuðningi.

Benedikt telur eðlilegt að hafa mjög harðar reglur um starfsemi banka sem eru bæði viðskipta- og fjárfestingarbankar. Hann segir hins vegar að það sé óeðlilega ströng krafa að fara fram á að fjármálafyrirtæki séu hlutafélög, eins og gert er í lögum um fjármálafyrirtæki.

„En ég held að það sem sé mest í veginum fyrir samkeppni og markaðsvirkni á þessum markaði er að við erum með fjármálakerfi þar sem þröskuldarnir eru of háir fyrir litla aðila til að byrja. Þess vegna verður kannski ekki til neitt samkeppnisaðhald,“ segir Benedikt. Hann telur mikilvægt að endurvekja sérlög um sparisjóði og þannig lækka þröskuldina fyrir nýja aðila á markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .