Þótt Eimskip hafi sætt sinn þátt samkeppnisrannsóknarinnar þá er þáttur keppinautarins Samskipa, meðreiðarsveins í brotum Eimskips samkvæmt sáttinni, enn til meðferðar. Andmælaskjöl eftirlitsins voru send til umsagnar á síðasta ári en ákvörðun liggur ekki fyrir.

Sáttin setur Samskip óneitanlega í nokkuð ankannanlega stöðu þegar kemur að því að taka til varna. Því til viðbótar, verði það niðurstaða eftirlitsins að félagið hafi líka brotið af sér, er viðbúið að litið verði til sáttarfjárhæðar Eimskips við ákvörðun sektar. Sætti Samskip ekki málið má gera ráð fyrir því að félaginu verði gerð áþekk eða hærri sekt en 1,5 milljarður. Samkvæmt ársreikningi Samskipa var eigið fé í ársbyrjun 12,8 milljónir evra, jafnvirði tæpra tveggja milljarða króna á gengi dagsins, og því ljóst að áþekk eða hærri sekt færi illa með félagið.

Hvað Eimskip varðar herma heimildir blaðsins að stærsta eigandanum, það er Samherja, hafi þótt óþarft að dreifa kröftum á of margar vígstöðvar. Í annan stað þá hafi verið auðvelt að eyða óvissu í rekstri félagsins sem fylgdi rannsókninni. Alþekkt er að tekið er tillit til sáttavilja við ákvörðun sektarfjárhæðar og horfir slíkt til lækkunar sektar.

Þá sést best á gengi bréfa félagsins að fjárfestar fögnuðu lokum rannsóknarinnar. Dagslokagengi félagsins 16. júní, það er sama dag og sáttin var undirrituð, var 287 krónur á hlut og heildarvirði þess rúmlega 50 milljarðar króna. Tæpum tveimur vikum síðar hafði gengi bréfanna hækkað um þriðjung og heildarvirðið aukist sem nemur ellefufaldri sektinni. Hæst fór hluturinn í 482 krónur um miðjan þennan mánuð. Sektarfjárhæðin var færð til gjalda á öðrum ársfjórðungi og þurrkaði út stóran hluta hagnaðarins en EBITDA félagsins var umtalsvert betri en á sama tíma í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .