Íslenska ríkið var í Landsrétti fyrir helgi dæmt til að greiða þrotabúi EK1923 ehf. tæplega 11 milljónir króna, auk vaxta og dráttarvaxta, vegna endurgreiðslu á ólögmætu tollgjaldi. Með því sneri dómurinn við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði sýknað ríkið.

EK1923 var tekið til þrotaskipta í september 2016 og var frestsdagur 9. maí sama ár. Eftir að tollgjaldadómarnir svokölluðu féllu sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið skiptastjóra búsins bréf þar sem fram kom að ríkið myndi endurgreiða búinu ólögmæta tollkvóta sem innheimtir hefðu verið í júlí 2015.

Áður en til þess kom skuldajafnaði ríkið hins vegar kröfu vegna ógreiddrar staðgreiðslu launa í september, október og nóvember 2016, það er næstu þrjá mánuði eftir þrot EK1923. Skilagreinum vegna staðgreiðslu hafði ekki verið skilað enda engin laun greidd á tímabilinu. Félagið hafði aftur á móti enn verið á launagreiðendaskrá og sætti því áætlun skattayfirvalda.

Skiptastjóri fór þess á leit að umrædd áætlun yrði felld niður en því hafnaði ríkið og spratt málið upp af þeim sökum þar sem aðila greindi á um hvort heimilt væri að skuldajafna kröfunni. Í héraði var ríkið sem fyrr segir sýknað af kröfu þrotabúsins.

Í dómi Landsréttar sagði að óumdeilt væri að þrotabúið hefði eignast kröfu á ríkið fyrir frestdag skiptanna. Krafa ríkisins stofnaðist hins vegar eftir frestdaginn og voru því heimildir gjaldþrotaskiptalaganna til skuldajafnaðar ekki uppfyllt.

„Breytir engu í því sambandi að sá hluti framangreindrar skattkröfu sem varðar starfsemi þrotabúsins eftir upphaf gjaldþrotaskipta telst til skiptakostnaðar [...] Þegar af þeirri ástæðu var [ríkinu] óheimilt að draga framangreinda skattkröfu sína á hendur [þrotabúinu] frá skuld sinni við hann vegna úthlutunar tollkvóta,“ segir í dómi Landsréttar.

Upphafleg dómkrafa þrotabúsins hljóðaði upp á tæplega 11,9 milljónir króna en hún sætti lækkun þar sem vextir höfðu verið lagðir oftar við höfuðstól kröfunnar en á ársfresti. Var dæmd upphæð samkvæmt dómsorði því lægri en krafan sjálf. Í dóminum var einnig tekið fram að fjármagnstekjuskattur myndi dragast frá vaxtatekjum af upphæðinni. Að auki var ríkinu gert að greiða þrotabúinu tvær milljónir króna í málskostnað.