Fyrirtaka er í tveimur málum tengdum þrotabúi Stefáns H. Hilmarssonar, fjármálastjóra 365 miðla, í Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Málin öll tengjast því að lögmaður þrotabúsins vill komast yfir einkahlutafélagið Vegvísir. Eina eign Vegvísis er svo aftur húseignin við Laufásveg 68 í Reykjavík.

Stefán var aðstoðarforstjóri Baugs Group á sínum tíma. Félagið fór í þrot vorið 2009. Stefán var svo sjálfur úrskurðaður gjaldþrota sumarið 2010. Fréttatíminn greindi frá því í fyrra að kröfum upp á tæpa 2,5 milljarða króna hafi verið lýst í þrotabú Stefáns. Örfáum dögum fyrir bankahrunið, í september 2008, tæpum tveimur árum áður en Stefán var lýstur gjaldþrota, seldi hann hins vegar einkahlutafélagið Vegvísi og þarf með húsið fyrir 150 milljónir króna. Kaupandinn var móðir hans sem jafnframt var stjórnarformaður Vegvísis. Móðir hans, Katrín Erla Thorarensen, er enn skráður eigandi félagsins.

Stefán flutti síðan lögheimili sitt til Lúxemborgar en er enn skráður til heimilis á Laufásvegi 68 í símaskrá.

Lögmaður þrotabús Stefáns hefur talið að um málamyndagjörning sé að ræða og vill rifta sölunni. Lögmaður Vegvísis hefur krafist frávísunar í málinu.

Greiðir mömmu háa leigu

Ljóst er af ársreikningi Vegvísis að leiga hússins við Laufásveg hefur snarhækkað á milli áranna 2009 og 2010 eða um rúm 50%. Árið 2009 námu leigutekjur þremur milljónum króna, sem jafngildir 250 þúsund króna leigu á mánuði. Ári síðar námu leigutekjur Vegvísis hins vegar rúmum 4,6 milljónum króna. Það gerir rúmlega 380 þúsund króna leigu á mánuði.

Vegvísir tapaði tæpum tíu milljónum króna árið 2010 samkvæmt ársreikningi. Ári fyrr nam tapið hins vegar tæpum 30,5 milljónum króna. Skuldir námu tæpum 153 milljónum króna. Eigið fé var hins vegar neikvætt um 40,4 milljónir króna að meðtöldu hlutafé upp á hálfa milljón. Eigið fé og víkjandi lán voru samtals neikvæð um rúmar 7,2 milljónir króna. Fasteignin var metin á 144 milljónir króna í ársreikningnum árið 2010 samanborið við 147 milljónir króna í lok árs 2009. Fram kemur í ársreikningnum að fasteignin við Laufásveg er bókfærð á upphaflegu kaupverði að  frádreginni árlegri afskrift sem nemur 2%.

Uppfært kl. 16:10: Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Stefáns Hilmarssonar, er eini stjórnarmaður í Vegvísi eftir aðalfund félagsins 29. október 2011. Tók hann sæti Katrínar Erlu Thorarensen. Þá hafa verið tekin út atriði sem ekki áttu erindi í fréttina. Ritstj.