Slitastjórn Landsbankans ráðgerir að fyrsta greiðsla úr þrotabúi bankans verði í þeim helstu gjaldmiðlum sem nú þegar eru til reiðu, evrum, pundum, bandaríkjadölum og íslenskum krónum. Miðað verður við gengi íslensku krónunnar 22. apríl árið 2009.

Í þrotabúinu var í septemberlok reiðufé í ýmsum myntum upp á 484 milljarða króna. Það skiptist í 740 milljón pund, 1,1 milljarð evra, 710 milljónir dala og 10 milljarða íslenskra króna.

Herdís Hallmarsdóttir í slitastjórn Landsbankans segir ekki liggja fyrir hvenær greiðslur úr búinu hefjist.

Þetta var kynnt á kröfuhafafundi skilanefndar og slitastjórnar bankans í dag og blaðamönnum að honum loknum.

Þá kom fram á fundinum að áætlaðar heimtur krafna séu áætlaðar 1.353 milljörðum króna. Það er 34 milljörðum krónum meira en forgangskröfur hljóða upp á. Forgangskröfurnar eru að nær öllu leyti svokallaðar Icesave-kröfur, skuldbindingar gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum.