Hæstiréttur sneri í dag við niðurstöðu héraðsdóms og sýknaði Íslandsbanka af kröfu þrotabús Stefáns H. Hilmarssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, um riftun á tryggingabréfum upp á tæpar 40 milljónir króna. Skiptastjóri þrotabúsins hefur unnið að því að rifta sölu Stefáns á húsinu, ná því inn í þrotabúið, og ná fram lækkun á veðum sem á því hvíla. Stefán var úrskurðaður gjaldþrota í júlí árið 2010.

Hæstiréttur komst m.a. að þeirri niðurstöðu að skilyrði um riftun á veðtryggingu hafi ekki verið uppfyllt þar sem riftunarþoli og þrotamaður hafi ekki verið nákomnir. Því til viðbótar taldi rétturinn að ekki hafi verið sýnt fram á að Stefán hafi verið ógjaldfær þegar Byr veitti veðin um mitt ár 2009. Eins og áður sagði var Stefán fjármálastjóri og um tíma aðstoðarforstjóri Baugs. Baugur fór í þrot í mars sama ár.

Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að tapist málið gæti svo farið að lýst verði yfir skiptalokum á þrotabúi Stefáns. Vinnist það muni skiptastjóri halda vinnunni áfram. Ekki mun hafa verið tekin ákvörðun um næstu skref.

Dómur Hæstaréttar