Þrotabú gamla Landsbankans og Glitnis banka hafa lokið við sölu á bresku verslanakeðjunni House of Fraser til fyrirtækis í eigu samstæðunnar Sanpower, en samstæðan er ein sú stærsta sem er í einkaeigu í Kína. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Söluverðið nemur um 480 milljónum punda sem jafngildir 93,3 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins munu um 10 milljarðar króna rennta til þrotabús gamla Landsbankans við söluna og fimm milljarðar til Glitnis.

House of Fraser var áður í eigu BG Holding, dótturfélags Baugs, en íslensku bankarnir gengu þar að veðum á árinu 2009. Fjárfestahópur sem Baugur Group fór fyrir árið 2006 greiddi 351 milljón punda fyrir verslanakeðjuna sem jafngildir nú um 68 milljörðum króna.