*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 10. ágúst 2020 16:45

Hlutabréf taka stökk

Flest félög Kauphallarinnar hækkuðu í viðskiptum dagsins en ávöxtunarkrafa allra skuldabréfa ríkisins lækkuðu, mest um 82 punkta.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala OMXI10 stendur nú í 2.101 stigi eftir 0,72% hækkun í dag. Heildarviðskipti dagsins námu 972 milljónum króna þar sem öll félög íslensku Kauphallarinnar hækkuðu í verði fyrir utan bréf Brims, Eimskips og Marels.

Hlutabréf Arion banka hækkuðu um 2,77% í 109 milljóna króna viðskiptum sem er næst mesta hækkun dagsins. Bréf félagsins standa nú í 70,5 krónum og hafa því hækkað um tæplega 7% síðasta mánuð.

Þriðja mest hækkun var á bréfum Sjóvá, um 2,24% í 48 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 20,55 krónum. Mest hækkun var þó á bréfum Icelandair, um 4,09%, en viðskiptin námu 420 þúsund krónum.

Bréf Símans hækkuðu um 1,41% í 220 milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins hafa nú hækkað um tæplega 21% á þessu ári og 45% síðasta ár.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkar

Samhliða hækkun hlutabréfa lækkaði ávöxtunarkrafa allra helstu skuldabréfa ríkisins. Mest lækkaði ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa ríkisins með greiðsludag árið 2021 eða um 82 punkta. Ávöxtunarkrafan er nú neikvæð um 0,72% en viðskiptin námu 139 milljónum króna.

Lengstu bréf ríkisins eru á gjalddaga árið 2053 og lækkaði ávöxtunarkrafa þeirra um 11 punkta í 301 milljóna króna viðskiptum. Krafan nemur nú 0,9% og eru bréfin verðtryggð.

Mest velta var á verðtryggðum skuldabréfum ríkisins á gjalddag árið 2030 eða fyrir 1.251 milljón króna. Ávöxtunarkrafa bréfanna lækkaði um 12 punkta og stendur nú í -0,07%.

Stikkorð: hlutabréf Kauphöll skuldabréf