Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum því verða meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum verða áfram 4,25%. Nefndin hefur nokkrar áhyggjur af hækkun verðbólguvæntinga og líklegt er að Seðlabankinn muni hugsanlega horfa til hækkunar stýrivaxta ef ekkert lát verður á hækkun verðbólguvæntinga, en þær eru lykilatriðið í því hvort bankinn hækki stýrivexti á næstunni. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka .

Fram kemur í greiningunni að framvirk leiðsögn hallist fremur til hækkunar en hitt, en leiðsögnin hefur verið hlutlaus undanfarin misseri. Greinendur bankans útiloka þó ekki möguleikann á lækkun vaxta ef samspil áhrifaþátta verður hagfellt.

Gera ráð fyrir meiri hagvexti

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir meiri hagvexti í ár en síðasta spá gerði ráð fyrir sem kom út í maí síðast liðnum. Gert er ráð fyrir 3,6% hagvexti í ár og 2,7% á næsta ári.  Verðbólguspáin hljóðar upp á 2,8% verðbólgu en síðast var hún 2,6% verðbólga að meðaltali.

Verðbólgumarkmið ekki algilt skammtímamarkmið

„Á kynningarfundinum í morgun ítrekaði Seðlabankastjóri að ekki ætti að horfa á 2,5% verðbólgumarkmið bankans sem algilt skammtímamarkmið, heldur fremur horfa til hvort verðbólga væri við markmið að jafnaði til meðallangs tíma. Það má því segja að enn sé bitamunur en ekki fjár á verðbólguhorfum og verðbólgumarkmiðinu samkvæmt spám okkar og Seðlabankans,“ segir í greiningunni.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að gengi krónu muni haldast svipað út spátímann en þó verði lítilsháttar afgangur á utanríkisviðskiptum. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri sagði á kynningarfundinum í morgun að raungengið sé í samræmi við jafnvægisgengi en áhyggjur snúi þó að því að hvort hætta væri að gengi krónunar hækki talsvert á fjórðungnum. Þá sagði hann jafnframt að ekki væri tímabært að slaka á innflæðishöftum að mati peningastefnunefndar.