Hagar hf. og Reginn hf. hafa undirritað samning um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. Viðskiptablaðið greindi frá viljayfirlýsingu Haga hf., Regins hf., Klasa ehf., og KLS eignarhaldsfélags ehf., núverandi eiganda Klasa ehf., um frekari uppbyggingu og rekstur fasteignaþróunarfélagsins Klasa ehf., en tilkynnt var um viljayfirlýsinguna 24. september síðastliðinn.

Eignarhlutur Haga verður þriðjungur af útgefnu hlutafé Klasa, líkt og eignarhlutur Regins og KLS eignarhaldsfélags. Hagar greiða fyrir eignarhlutinn með þróunareignum sem metnar eru á rúmlega 3,9 milljarða króna. Reginn greiðir fyrir eignarhlutinn með eignasafni sem samanstendur af sölueignum og þróunareignum sem metnar eru á rúmlega 3,9 milljarða króna.

Með framlagi félaganna þriggja verður heildar umfang þróunareigna Klasa nálægt 280 þúsund fermetrum, auk annars tug fasteigna í útleigu sem hugsaðar eru til sölu eða frekari þróunar. Í Kauphallartilkynningu segir að verðmæti eigna Klasa eftir viðskiptin verður um 14,8 milljarða króna og eiginfjárhlutfall félagsins í upphafi 79%.

Þróunareignirnar sem Hagar leggja til Klasa eru Stekkjarbakki 4-6, Álfabakki 7, Klettagarðar 27, Álfheimar 49, Egilsgata 5, Tjarnarvellir 5 og Nýbýlavegur 1. Reginn leggur til lóðir til uppbyggingar, eignir sem eru utan skilgreindra kjarnasvæða félagsins og aðrar eignir sem henta ekki núverandi eignasafni miðað við kjarnastarfsemi og fjárfestingarstefnu. Alls eru það um 15 tekjuberandi fasteignir og 4 þróunarreiti sem staðsettir eru við Smáralind, Lágmúla, Garðahraun og Tjarnavelli.

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa segir aðkomu nýrra hluthafa vera staðfestingu á þeim árangri sem félagið hefur náð á sviði fasteignaþróunar og gerir ráð fyrir því að þróunaverkefni Klasa muni njóta góðs af aukinni sérþekkingu sem fæst með nýjum hluthöfum.

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en áreiðanleikakönnunum er nú lokið.