Fjártæknifyrirtækið Five Degrees hefur tryggt sér 22 milljóna evra fjármögnun – andvirði 3.452 milljóna króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Um er að ræða stærstu fjármögnunarumferð félagsins til þessa en Björn Hólmþórsson, forstjóri hérlendis og annar stofnenda, segir að fjármagnið veiti áframhaldandi vexti byr undir báða vængi. Five Degrees sé núna búið að fjármagna áframhaldandi nýþróun fyrir næstu tvö árin og segir Björn að fjármögnunin sé „viðurkenning á því góða starfi sem okkar fólk hefur unnið að samfleytt undanfarin tvö ár við þróun nýrrar skýjalausnar“.

Áðurnefndur Björn ásamt Hollendingnum Martijn Hohmann stofnuðu Five Degrees árið 2009 en fyrirtækið sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki. Hugbúnaður félagsins er nýttur af fjármálafyrirtækjum hérlendis sem og erlendis til að halda utan um bakvinnslu fyrir ýmist innlán, útlán eða verðbréfaviðskipti.

Nú um mundir hannar Five Degrees hugbúnað til þess að halda utan um bakvinnslu fyrir útlán og verðbréfaviðskipti hérlendis en ekki fyrir innlán, þrátt fyrir að gera slíkt erlendis. Björn segir að félagið sé með um þrjátíu innlenda viðskiptavini – til að mynda alla viðskiptabankana sem og Kviku banka – og að innlendi markaðurinn sé um fjórðungur af heildarveltu fyrirtækisins. Enn fremur að „nánast öll verðbréfaviðskipti á Íslandi séu gerð í kerfum Five Degrees“.

Stefnan sett á að skýjavæða þjónustuna

„Það hefur alltaf verið okkar stefna að skýjavæða kerfin okkar og bjóða sem þjónustu (SaaS). Slíkt þýðir náttúrulega tvö til þrjú ár í þróun á skýjalausn sem er sú vegferð sem við erum í núna,“ segir Björn. Segir hann að eftir skýjavæðingu kerfisins geti Five Degrees uppfært kerfi viðskiptavina sinna á um það bil vikufresti – samanborið við tvisvar á ári nú. Enn fremur verði uppfærslurnar hraðari og ódýrari en meðan á ferlinu stendur selur fyrirtækið ennþá núverandi kerfi sem ekki eru keyrð í skýinu.

„Hingað til höfum við verið að taka inn þrjár til sex milljónir evra hverju sinni í okkar fjármögnunarumferðum. Hins vegar var núna ákveðið að best væri að skýjaþróunin væri fjármögnuð í tvö til þrjú ár án þess að selja vöruna, þetta er stórt verkefni og krefst mikils fjármagns,“ segir Björn og vitnar þar til skýjalausnarvæðingu fyrirtækisins. Bætir hann við að einn af þeirra fjárfestum hefur sömuleiðis fjárfest í Meniga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér