Dan Porter, þróunarstjóri bandaríska netleikjafyrirtækisins Zynga, hefur yfirgefið fyrirtækið. Porter kom til Zynga fyrir ári þegar leikjafyrirtækið keypti fyrirtækið hans OMPPop. Kaupverðið nam 183 milljónum dala, jafnvirði 22 milljarða íslenskra króna.

Eins og AP-fréttastofan fjallar um málið hefur hallað enn frekar undir fæti hjá Zynga. Fyrirtækið hefur ekki náð að auka tekjur sínar. Þá var brotthvarf Porter ekki til þess að lyfta brúninni á hluthöfum Zynga. Gengi bréfa í fyrirtækinu féll um 2,9% þegar greint var frá brotthvarfi hans. Það stendur nú í 3,07 dölum á hlut. Fyrir ári stóð það í 12,9 dölum á hlut. Hlutabréf fyrirtækisins voru skráð á markað í desember árið 2011 og þóttu hátt verðlögð á sínum tíma.