Íbúðalánasjóður lánaði samtals 960 milljónir til fasteignakaupa í júní síðastliðnum, en þar af voru 710 milljónir vegna almennra lána. Uppgreiðslur viðskiptavina á lánum námu 1,1 milljarði króna í júní, samkvæmt mánaðarlegu yfirliti sjóðsins.

Fjallað var um ný útlán og uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Frá janúar 2012 til maí 2013 hafa uppgreiðslur verið 5,4 milljörðum hærri en útlán sjóðsins. Júní er níundi mánuðurinn í röð þar sem uppgreiðslur eru hærri en útlán sjóðsins. Fram kemur í nýju yfirliti Íls að hlutfall lána í vanskilum einstaklinga hafi lækkað um 1,72% frá því að vanskil náðu hámarki í júlí 2012. Í lok júní nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 4,9 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 85,3 milljarðar króna eða um 12,92% útlána sjóðsins til einstaklinga.