Hjátrúarfullt eða heiðið fólk gæti litið svo á að þrumuguðinn Seifur hafi nú loks látið í ljós skoðun sína á evrópskum stjórnmálum og evrukrísunni svokölluðu. Í dag ætlaði hinn nýbakaði Frakklandsforseti, François Hollande, að fljúga til Þýskalands og funda með kanslaranum Angelu Merkel um hvernig taka bæri á skuldavanda evruríkjanna, þar á meðal Grikklands.

Flugvélin var ekki komin langt á leið þegar eldingu laust niður í hana og ákvörðun var tekin um að snúa aftur til Parísar. Engum varð meint af, en fundur þjóðarleiðtoganna frestast eitthvað vegna þessara inngripa Seifs.

Hollande hefur ítrekað látið í ljós þá skoðun sína að aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum séu ekki sú leið sem evruríkin eiga að fara til að komast út úr kreppunni, sem enn grípur mörg evrópsk hagkerfi. Þá vill hann draga úr því sem hann kallar óeðlilega auðsöfnun og leggja meiri áherslu á framleiðslu en spákaupmennsku.