Í viðhorfskönnun, sem fyrirtækið Outcome kannanir gerði fyrir Samtök iðnaðarins, voru félagsmenn meðal annars spurðir að því hvernig þeir mætu aðstæður í efnahagslífinu í dag fyrir sitt fyrirtæki.

Ríflega 60% telja þær mjög eða frekar góðar. Í könnuninni má einnig sjá að engin sérstök bjartsýni ríkir. Þegar félagsmenn voru beðnir um að horfa sex til tólf mánuði fram tímann sögðust 27% telja að aðstæðurnar í efnahagslífinu yrðu betri þá en í dag.

„Ég held að þarna spili sveiflur í hagkerfinu og gengi krónunnar inn í, sem og óvissa um stöðuna á vinnumarkaði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Í raun má skipta félagsmönnum okkar í tvennt. Annars vegar þá sem starfa á innlendum markaði, flytja inn aðföng og selja vörur eða þjónustu á Íslandi. Hinsvegar hugverka- og framleiðslufyrirtæki, sem eru í alþjóðlegri samkeppni. Viðhorf þessara hópa eru mjög ólík. Áhyggjurnar eru mun meiri hjá þeim sem reka fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Ástæðan er sú að krónan er sterk og laun hér á landi há í alþjóðlegum samanburði.“

Blikur á lofti

Félagsmenn voru einnig spurðir að því hversu mikill eða lítill þrýstingur væri á launahækkanir í þeirra fyrirtækjum, sem og hvernig þeir myndu mæta launahækkunum ef til þeirra kæmi. Næstum 50% svarenda sögðu mjög mikinn eða mikinn þrýsting vera á launahækkanir. Ef til launahækkana kemur sögðust 56% þurfa að bregðast við með verðhækkunum á vöru eða þjónustu og 19% sögðust þurfa að mæta launahækkunum með því að fækka starfsfólki.

„Við finnum vel fyrir því að félagsmenn hafa áhyggjur af stöðu kjaramála. Þeim fannst flestum vel í lagt í síðustu kjarasamningum og bundu vonir við að með þeim myndi skapast friður á vinnumarkaði. Menn geta auðvitað deilt um það hvort það markmið hafi náðst en af umræðunni að dæma þá eru blikur á lofti. Það sést vel í þessari könnun hvaða afleiðingar miklar launahækkanir munu hafa fyrir fjölmörg fyrirtæki. Þau munu þurfa að hagræða, fækka starfsfólki eða hækka verð á sínum vörum, sem getur auðvitað leitt til aukinnar verðbólgu.

Það má líka nefna eitt annað í þessu sambandi. Fjórða iðnbyltingin, sem nú stendur yfir, gengur út á aukna sjálfvirknivæðingu. Ef laun hækka mikið þá hljóta fyrirtæki í auknum mæli að hugsa sinn gang hvað tækjakaup varðar og aukna sjálfvirknivæðingu. Einhvers staðar hlýtur skurðpunkturinn á milli launakostnaðar og kostnaðar við sjálfvirknivæðinguna að liggja.“

Sigurður segir að vegna stöðu kjaramála verði mjög áhugavert að sjá hver þróunin í rekstrarumhverfi fyrirtækja verði á næstu tólf mánuðum.

SI könnun
SI könnun

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .