Krist­rún Frosta­dóttir, odd­viti Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík suður, gagnrýnir um­mæli Ás­geirs Jóns­sonar seðla­banka­stjóra um að stefna Reykja­víkur­borgar í skipu­lags­málum hafi leitt til hækkunar á fast­eigna­verði á höfuð­borgar­svæðinu og segir aðgerðir Seðlabankans hafi spilað stærri þátt.

„Þú hlýtur að vera að grínast. Það er eitt að lækka vexti. Annað að ýta undir mörg hundruð milljarða út­lán til heimila í sér­tækri at­vinnu­kreppu. Þegar ég vakti at­hygli á þessu í nóv. var gagn­rýninni ýtt til hliðar. Nú er skipu­lags­málum kennt um skamm­tíma­hreyfingar á fast­eigna­markaði," segir Krist­rún í Twitter færslu.

Telur framboð lóða vera til staðar

Í gær til­kynnti Fjár­mála­stöðug­leika­nefnd Seðla­bankans frá því að veð­setninga­hlut­fallið yrði lækkað úr 85% í 80% . Í sam­tali við Frétta­blaðið í dag segir seðla­banka­stjóri að þetta hefði verið gert til þess að komast hjá því að hækka vexti. Hann bætir við að ekki hefði þurft að lækka hlut­fallið hefði betur verið haldið á spöðunum við upp­byggingu hús­næðis í Reykja­vík.

„Það liggur alveg fyrir, sama hvernig menn snúa því fram og til baka, að sú á­kvörðun Reykja­víkur­borgar að brjóta ekki nýtt land undir ný hverfi, hefur á­hrif á fast­eigna­verð í allri borginni. En vita­skuld er nægjan­legt rými fyrir nýtt hús­næði til staðar á þéttingar­reitum innan borgarinnar - það bara tekur lengri tíma að koma þeim í gagnið. Við gætum horft fram á eitt eða tvö ár þar sem heldur hægir á fram­boði af nýjum eignum," segir Ás­geir við Frétta­blaðið.

„Aftur á móti held ég að fram­boð fast­eigna verði ekki vanda­mál þegar litið er lengra fram, vegna þess að nægt land er til staðar og verk­taka­bransinn mun taka við sér. Við erum að örva fram­boð fast­eigna með því að halda vöxtum lágum, enda fjár­magna verk­takar sig gjarnan á breyti­legum vöxtum"

Segir hækkun hús­næðis­verðs ekki vera vegna þéttingar­stefnu

Kristrún gagnrýnir aðgerðir seðlabankastjóra og segir fram­boð hús­næðis vera seig­fljótandi en að eftir­spurn geti hins vegar breyst hratt eftir því hversu mikið að­gengi er að fjár­magni. „Í stað þess að ráðast snemma í sér­tækar að­gerðir fyrir ein­stak­linga og fyrir­tæki í tekju­stoppi var á­kveðið að pumpa upp kerfið með aukinni skuld­setningu allra. Það ein­fald­lega stenst ekki að 14% hækkun hús­næðis­verðs á nokkrum mánuðum sé allt í einu vegna þéttingar­stefnu Reykja­víkur­borgar."

Hún telur það ósk­hyggju ef að seðla­banka­stjóri telur að aukið fram­boð á lóðum leiði til þess að aðilar í upp­byggingu á fast­eignum fari að selja eignir undir markaðs­virði og bætir við að það sé skamm­sýni að „þenja út alla byggð."

„Það sem breyttist í fyrra var mörg hundruð milljarða aukning fjár­magns sem rann í gegnum banka­kerfið og beint inn á fast­eigna­markaðinn. Það er eðli­legt að endur­skoða að­gerðir, enginn gerir þá kröfu að allt gangi upp. Að endur­skrifa söguna og horfa fram hjá stærstu breytunni á fast­eigna­markaði í fyrra er allt annað mál. Klassískt dæmi um hvernig ó­beinar efna­hags­að­gerðir geta brenglað allt kerfið."

Twitter færslu Kristrúnar er hægt að lesa í heild sinni hér að neðan.