Á meðan flestir vinir þeirra stefndu á störf í fjármálageiranum höfðu þeir Einar Örn og Emil Helgi meiri áhuga á því að opna veitingastað. Þeir voru aðeins 25 ára þegar þeir opnuðu fyrsta Serrano skyndibitastaðinn í Kringlunni en í dag eiga þeir og reka tíu staði, sex hér á landi og fjóra í Svíþjóð.

Fyrsti staðurinn í Kringlunni gekk sæmilega frá upphafi enda staðsetningin afar góð. Þeir áttuðu sig þó fljótt á því að þeir þyrftu að fá sér aðra vinnu samhliða þessu og fóru báðir í fullt starf annars staðar. Það var ekki fyrr en um fimm árum síðar, eða árið 2007, sem Einar Örn sagði upp í sinni vinnu til að sinna rekstrinum í fullu starfi og Emil Helgi ári síðar.

„Það varð ákveðinn vendipunktur hjá okkur þegar við náðum samningi um pláss í nýrri bensínstöð N1 við Hringbraut,“ segir Einar Örn.

„Það voru nokkrir sem höfðu hafnað því plássi og sjá sjálfsagt eftir því í dag. Staðsetningin segir mikið til um velgengni þessara staða. Við sjáum t.d. í Svíþjóð að þar lifa alls konar misgóðir veitingastaðir af því að þeir eru vel staðsettir og geta þannig treyst á fjölda ferðamanna og þeirra sem ekki þekkja svæðið. En það verður erfiðara fyrir slíka staði að lifa af innan um íbúa sem búa á svæðinu. Þú selur bara rusl einu sinni. Við erum núna komnir í þá stöðu að vilja ekki opna hvar sem er, við viljum velja staðsetningu mjög vandlega.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fara þeir Einar Örn og Emil Helgi yfir farinn veg frá stofnun Serrano, erfiða byrjun í útrás, hvað það er sem gerir vörumerkið gott og framtíð félagsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðinum tölublöð hér að ofan.