Hugbúnaðarfyrirtækið Thula – Nordic Source Solutions hefur fengið vilyrði fyrir 45 milljón króna úthlutun úr Tækniþróunarsjóði yfir þriggja ára tímabil, 15 milljónir króna á ári að uppfylltum skilyrðum sjóðsins. Styrkurinn verður veittur til þróunar á hugbúnaði sem á að tryggja aukið rekstrarhagræði með bestun á lyfjalagerum. Hugbúnaðinum er einnig ætlað að tryggja betri framkvæmd á fjölskömmtun lyfja.

„Fjölskömmtun eru þessar lyfjarúllur sem fólk fær sem er með mikið af lyfjum og þarf að passa upp á að fá lyfin á ákveðnum tímum,“ segir Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri félagsins í samtali við Viðskiptablaðið.

Samningur um styrkveitingu verður undirritaður í ágúst. Stærsti viðskiptavinur félagsins er norska heilbrigðisráðuneytið og sjúkrahúsapótek þar í landi, en Thula hefur hannað hugbúnað fyrir lyfjaávísanir þar í landi.