Eigendur þýska félagsins World Leisure Investment fá frest út vikuna til að ljúka samningum um byggingu Marriot-hótels við ráðstefnu- og tónlistarhúsið Hörpu. Áformað er að það rísi 262 herbergja hótel. Greint var frá því í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (RÚV) að eigendur lóðarinnar, félagið Sítus sem er í eigu ríkis og borgar, séu að missa þolinmæðina enda hafi viðræður í marga mánuði við forsvarsmenn World Leisure Investment engu skilað. Forsvarsmenn Sítusar hafa nú gefið þýska félaginu frest út vikuna til þess að klára samninga um byggingu hótelsins. Gangi það ekki verður leitað til næstbjóðenda og farið í könnunarviðræður við aðra bjóðendur.

Í fréttum RÚV sagði m.a. að samningarnir hafi ekki verið undirritaðir þar sem samstarfsaðili fjárfestanna, Interhospitality Holdings, sem er hluti af IKEA samstæðunni, hefur haft efasemdir um að fjárfesta hér á landi.

Pétur J. Eiríksson stjórnarformaður Sítusar, segir fjárfestanna einkum hafa áhyggjur af gjaldeyrishöftum og íslensku krónunni. Reynt hafi verið að efla tiltrú þeirra á fjárfestingum hér en það engu skilað.