Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) sendu í gær frá sér tilkynningu þar sem þau lýsa yfir þungum áhyggjum vegna yfirvinnubanns flugumferðastjóra.

Tilefni yfirlýsingarinnar er tilkynning sem barst frá ISAVIA þar sem segir að vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra verði þjónusta á Keflavíkurflugvelli takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá kl. 21.00 í gærkvöldi til kl. 07.00 í dag. Ástæðan er sögð sú að tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vakt í nótt eru veikir og vegna yfirvinnubanns fást ekki flugumferðarstjórar til afleysinga.

Samtökin segja ljóst að þessar aðgerðir muni hafa áhrif á 24 flug til og frá landinu með þeim afleiðingum að rúmlega 4000 farþegar komast ekki lönd né strönd.

SAF telja óásættanlegt að ferðaþjónustunni og almannahagsmunum sé stefnt í voða með þeim hætti sem raun ber vitni. Það gangi ekki upp að fámennir hópar launþega geti valdið jafn miklum vandræðum og haft ferðaþjónustuna og samgöngur til og frá landinu í hendi sér í kjarabaráttu sinni. Ímynd og orðspor Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn sé í húfi og mikilvægt að stöðugleiki ríki í samgöngum. Þá verði að eyða allri óvissu fyrir ferðaþjónustuna og landsmenn alla hið fyrsta.

Í tilkynningu sinni skora SAF á samningsaðila beggja vegna borðsins að ná sáttum þannig að ekki komi til frekara tjóns fyrir íslenskt samfélag.