*

mánudagur, 11. nóvember 2019
Innlent 9. júní 2019 19:01

„Þungarokkið er baktería“

Þó Birgir Jónsson sé tekinn við sem forstjóri Íslandspósts og hættur í Dimmu er hann með plötu í smíðum.

Höskuldur Marselíusarson
Nýráðinn forstjóri Íslandspósts er prentari en segist hafa gert skrýtna hluti á starfsferlinum sem mest hefur snúist um endurskipulagningu fyrirtækja.
Haraldur Guðjónsson

Nýr forstjóri Íslandspósts, Birgir Jónsson, segir breytingar á rekstri félagsins óhjákvæmilegar.

„Mér, eins og öllum, finnst auðvitað ekki ásættanlegt að eigandi fyrirtækisins þurfi að vera að leggja því til fé, svo fyrsta málið á dagskrá er að fyrirtækið sé sjálfbært og skili eiganda sínum, ríkinu, arði,“ segir Birgir sem segir að öll fyrirtæki þurfi stöðugt að skoða rekstur sinn gagnrýnum augum.

„Mitt hlutverk verður að vera með almenna stefnumótun og tryggja góðan rekstur, en við sjáum auðvitað fram á miklar breytingar í bæði lagalega og rekstrarlega umhverfinu. Sendingar eru almennt að færast úr bréfum í böggla og því ljóst að endurskoða þarf ýmislegt sem hefur virkað á síðustu árum og hvort það sé að fara að virka í framtíðinni.“

Birgir hefur lengi starfað við ýmiss konar rekstrarverkefni, en hann er menntaður offsetprentari. „Síðan fór ég í háskólanám í rekstri á prent- og útgáfufyrirtækjum í London, og tók þar MBA gráðu ofan á það, og síðar fór ég í doktorsnám með vinnu í Hong Kong, en kláraði þó ekki.

Ég er búinn að gera mjög furðulega hluti á starfsferlinum, byrjaði sem sölu- og markaðsmaður en hef þróast út í að sinna svona hálfgerðri breytingarstjórnun og ýmsum viðsnúningsverkefnum. Fyrst var ég að stýra uppbyggingu hjá Össuri hf. í Asíu og bjó þá í Hong Kong, síðan varð ég forstjóri Iceland Express í um tvö ár, þar til ég flyt til Rúmeníu til að verða forstjóri einnar stærstu prentsmiðju Austur-Evrópu,“ segir Birgir sem flutti heim á ný árið 2011.

„Síðan þá hef ég verið í ýmiss konar endurskipulagningar- og stefnumótunarverkefnum með fyrirtækjum og einingum sem hafa þurft að aðlagast nýjum veruleika á hverjum tíma. Til dæmis var ég aðstoðarforstjóri Wow þegar þeir voru að fara að hefja sinn fræga vöxt, en einnig starfaði ég hjá Advania þar sem ég leiddi sameininguna við Tölvumiðlun. Nú síðast tók ég um skamma hríð við Póstdreifingu, sem þá stóð mjög illa og þurfti að fara í gegnum endurskipulagningu, áður en það var selt.“

Eiginkona Birgis er Lísa Ólafsdóttir verslunareigandi og eiga þau saman fjóra stráka á aldrinum 16 til 25 ára. Eins og margir þekkja hefur hann í frítíma sínum trommað fyrir hljómsveitina Dimmu, sem hann hætti í um áramótin, en hann segir þó tónlistaráhugann ekki hafa smitast yfir á syni sína.

„Ég held að það sé alltaf þannig að börn eigi að vera í uppreisn gegn foreldrunum og gera eitthvað allt annað. Nú er tónlistin að færast aðeins meira yfir í að vera áhugamál, en við Aðalbjörn Tryggvason, söngvari í Sólstöfum, erum þó að gera plötu, sem verður örugglega sú þyngsta og harðasta sem ég hef komið nálægt. Þungarokkið er baktería sem maður losnar ekkert við.“