*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 4. apríl 2020 14:05

Þungt högg fyrir orkufyrirtækin

Hrun álverðs hefur í för með sér töluvert tekjutap fyrir íslensku orkufyrirtækin.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Lækkun álverðs veldur því að Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka verða af umtalsverðum tekjum. Álverð hefur fallið um 17% frá miðjum janúar, úr um 1.800 dollurum á tonnið og undir 1.500 dollara á tonnið. Álverð fór síðast svo lágt árin 2009 og 2015. Offramleiðslu á áli og samdrætti í eftirspurn í kjölfar kórónuveirufaraldursins er kennt um. 

Raforkusamningar Landsvirkjunar við Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði eru tengdir álverði, sem og samningar Orkuveitunnar og HS Orku við Norðurál á Grundartanga. Í tilfelli Landsvirkjunar er um þriðjungur af raforkunni sem félagið framleiðir seldur til Alcoa. Hlutfall af tekjum félagsins er eitthvað lægra en þriðjungur en talið er að álverið á Reyðarfirði greiði með lægra raforkuverði álvera í heiminum. Tekjur Landsvirkjunar námu ríflega 60 milljörðum króna í fyrra. Landsvirkjun hefur markvisst unnið að því að draga úr álverðstengingum en 77% af raforku sem félagið seldi árið 2009 var tengt álverði.

Út úr ársreikningum Orkuveitu Reykjavíkur má lesa að Norðurál hafi greitt félaginu um 6,6 milljarða króna fyrir raforku árið 2018 og 6 milljarða króna árið 2019. Álverð fór hæst í 2.500 dollara á tonnið árið 2018 en hefur síðan þá farið lækkandi. Orkuveitan og Landsvirkjun hafa keypt varnir fyrir um helmingi af breytingum í álverði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér