Lækkun álverðs veldur því að Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka verða af umtalsverðum tekjum. Álverð hefur fallið um 17% frá miðjum janúar, úr um 1.800 dollurum á tonnið og undir 1.500 dollara á tonnið. Álverð fór síðast svo lágt árin 2009 og 2015. Offramleiðslu á áli og samdrætti í eftirspurn í kjölfar kórónuveirufaraldursins er kennt um.

Raforkusamningar Landsvirkjunar við Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði eru tengdir álverði, sem og samningar Orkuveitunnar og HS Orku við Norðurál á Grundartanga. Í tilfelli Landsvirkjunar er um þriðjungur af raforkunni sem félagið framleiðir seldur til Alcoa. Hlutfall af tekjum félagsins er eitthvað lægra en þriðjungur en talið er að álverið á Reyðarfirði greiði með lægra raforkuverði álvera í heiminum. Tekjur Landsvirkjunar námu ríflega 60 milljörðum króna í fyrra. Landsvirkjun hefur markvisst unnið að því að draga úr álverðstengingum en 77% af raforku sem félagið seldi árið 2009 var tengt álverði.

Út úr ársreikningum Orkuveitu Reykjavíkur má lesa að Norðurál hafi greitt félaginu um 6,6 milljarða króna fyrir raforku árið 2018 og 6 milljarða króna árið 2019. Álverð fór hæst í 2.500 dollara á tonnið árið 2018 en hefur síðan þá farið lækkandi. Orkuveitan og Landsvirkjun hafa keypt varnir fyrir um helmingi af breytingum í álverði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .