302 milljóna króna tap varð af rekstri Flugfélagsins Ernis árið 2020, en árið áður nam tap félagsins 86 milljónum króna. Rekstrartekjur félagsins námu 829 milljónum króna en árið áður námu tekjur 1,2 milljörðum króna. Rekstrargjöld drógust að sama skapi saman á milli ára, úr 1,2 milljörðum í 964 milljónir. Eignir félagsins námu 1,2 milljörðum króna í loks árs 2020, skuldir 1,5 milljörðum og eigið fé var neikvætt um 290 milljónir króna.

Í skýrslu stjórnar er sagt frá því að á árinu 2020 hafi flugfélagið lokið við endurfjármögnun á skuldum við helstu lánastofnun félagsins þar sem yfirdráttur hafi verið endurfjármagnaður með langtímaláni. Þá hafi hluti lána í dölum verið breytt í lán í íslenskum krónum og afborganir lána árin 2020 til 2022 lækkaðar verulega.

Á árinu 2020 hafi félagið gripið til ýmissa aðgerða til að bæta rekstur félagsins og lækka skuldsetningu. Meðal aðgerða sem gripið hafi verið til var markviss sala eigna samhliða niðurgreiðslu lána, tekjugrunnur félagsins hafi verið styrktur m.a. með því að endursemja viðríkissjóð, dregið hafi verið úr óhagkvæmu áætlanaflugi og hagrætt á tilteknum flugleiðum. Þrátt fyrir það hafi orðið fyrrnefnt tap á rekstri félagsins en bent er á að af milljónunum 302 hafi gengistap verið um 104 milljónir króna og sölutap rekstrarfjármuna 60 milljónir. EBITDA félagsins hafi þó verið jákvæð um 15 milljónir króna.

Á árinu 2021 hafi félagið endursamið við lánastofnanir og samhliða fengið niðurfellingu skulda að fjárhæð 300 milljónir kr. Stjórnendur félagsins vinni að því að styrkja eigið fé félagsins frekar og stefnt að jákvæðu eigin fé í árslok 2021. Rekstrarárið 2020 hafi litast verulega af neikvæðum áhrifum COVID-19 en þau áhrif séu ekki eins neikvæð á árinu 2021.

Rekstur félagsins fyrstu sex mánuði ársins 2021 hafi verið betri en á sama tíma árið 2020 og áætlanir út árið 2021 geri ráð fyrir mun betri afkomu en árið 2020. Að mati stjórnar og framkvæmdastjóra hafi félagið með fyrrnefndum aðgerðum styrkt rekstur félagsins fjárhagslega. Telja stjórn og stjórnendur félagsins því að það muni verða rekstrarhæft í fyrirsjáanlegri framtíð.

Í skýringu í ársreikningnum sem fjallar um rekstrarhæfi félagsins segir þó að ef hagræðingaraðgerðir skili sér ekki sem skyldi og félagið fái ekki nýtt fjármagn, t.d í formi eigin fjár, geti leikið vafi á rekstrarhæfi félagsins.

Flugfélagið Ernir er í meirihlutaeigu framkvæmdastjórans Harðar Guðmundssonar og eiginkonu hans, Jónínu Guðmundsdóttur.