Flugfélagið WOW air, sem er alfarið í eigu Skúla Mogensen í gegnum Títan Fjárfestingafélag ehf., hyggst sækja sér 500 til 1.000 milljónir sænskra króna með útgáfu þriggja ára skuldabréfs. Jafngildir þetta sex til 12 milljörðum íslenskra króna en fjármunirnir eiga að brúa reksturinn næstu átján mánuði en þá stefnir félagið að skráningu á markað. Norska verðbréfafyrirtækið Pareto Securities mun hafa umsjón með skuldabréfaútboðinu. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu WOW sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum og hefur nú verið birt opinberlega á vefsíðu Kjarnans. WOW er stórt félag á íslenskan mælikvarða en hjá því starfa um 1.400 til 1.500 manns.

Á árinu 2016 birti WOW árshlutauppgjör en hvarf frá þeirri stefnu í fyrra. Í viðskiptalífinu hefur því verið beðið eftir ársreikningi WOW fyrir árið 2017 með nokkurri eftirvæntingu. Samkvæmt lögum ber fyrirtækinu að skila ársreikningi mánuði eftir að hann er samþykktur eða í síðasta lagi í lok ágúst. Reikningurinn hefur ekki verið birtur en þann 13. júlí síðastliðinn sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þar sem fram kom að félagið hefði tapað 2,3 milljörðum króna á síðsta ári. Það er mikill viðsnúningur frá árinu 2016 þegar félagið hagnaðist um 4,3 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningunni námu tekjur WOW um 486 milljónum dollara í fyrra eða 52 milljörðum króna, sem þýðir að þær jukust um 58% frá árinu 2016.

Mikill tekjuvöxtur

Í fjárfestakynningunni má lesa ýmislegt fróðlegt um fjárhagsstöðu félagsins. Jákvæðu atriðin eru mikill tekjuvöxtur samfara mikilli farþegafjölgun. Ef spá félagsins rætist mun vöxturinn halda áfram. Fyrirtækið gerir ráð fyrir því að á næsta ári fari tekjurnar í 659 milljónir dollara og árið 2019 í 826 milljónir. Árið 2013 námu tekjur félagsins 81 milljón dollara.

Samkvæmt fjárfestakynningunni er augljóst að rekstur félagsins er erfiður núna. Á tólf mánaða tímabili, frá júlí í fyrra til loka júní á þessu ári, nam rekstrartap WOW 45 milljónum dollara. Félagið  gerir ráð fyrir því að EBITDAR (afkoma að teknu tillti til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og leigugreiðslna) hækki úr 60 milljónum dollara á þessu ári í 142 milljónir á því næsta eða um 125%. Samkvæmt aðilum sem þekkja vel til í flugrekstri er þetta mjög brött áætlun miðað við núverandi rekstrarumhverfi flugfélaga og erfitt að sjá hvernig þetta eigi að nást öðruvísi en með því að hækka flugfargjöld nú, minnka framboð eða lækka  kostnað. Í þessu sambandi má benda á að 1% hækkun á eldsneyti lækkar EBITDAR um 1,6 milljónir dollara. Olíumarkaðurinn er sérlega viðkvæmur um þessar mundir og í fyrradag hækkaði olíuverð til að mynda um 2%. Er það yfirlýst stefna WOW að verja sig ekki fyrir breytingum á olíuverði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .