Jóhanna Katrín Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að tryggingafélögin VÍS, Sjóvá og TM hafi skilað  ágætis afkomu af fjárfestingastarfsemi.

„Afkoma tryggingarstarfsemi er hins vegar slakari þar sem samsetthlutföll liggja yfir 100%," segir Jóhann Katrín. „Ástæðan liggur ekki síst í slæmri afkomu af ökutækjatryggingum sem er stærsta tryggingargreinin. Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að afkoma þessarar greinar væri að þróast með neikvæðum hætti samhliða aukinni umferð sem og versnandi ástandi vega. Langur tími getur liðið milli tjónsatburðar og greiðslu og því mikilvægt að félögin hafi borð fyrir báru í verðlagningu. Sé tjónskostnaður síðan minni en lagt er upp með getur það haft jákvæð áhrif á samsett hlutfall til lengri tíma."

Jóhanna Katrín segir að Greining Íslandsbanka geri ráð fyrir að róðurinn í tryggingarstarfsemi félaganna verði áfram þungur á næsta ári og nánast óhugsandi að greinin í heild sinni nái að skila undir 100% samsettu hlutfalli á árinu nema til komi talsverðar verðhækkana. Þá verði spennandi að sjá hvort boðaðar taxtahækkanir VÍS muni duga til að bæta afkomu tryggingarreksturs þar.

„Á sama tíma er útlit fyrir vöxt í greininni nokkuð góður þar sem auknar fjárfestingar þarf að tryggja. Við gerum ráð fyrir að fjárfestingar aukist um 17% á árinu. Meðal fjárfestinga eru t.d. talsverð bílakaup bílaleiga en eins og sjá má í nýútkominni skýrslu okkar um íslenska ferðaþjónustu má búast við að bílaleigur fjárfesti í bílum fyrir um 22 milljarða króna á þessu ári."

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning .