Viðskiptaráð styður frumvarp til reytingar á lögum um tekjuskatt sem eiga að takmarka möguleika á skattasniðgöngu með svokallaðri þunnri eiginfjármögnun.

Samræma eigi skilgreiningu milli laga

Tekur ráðið undir mikilvægi þess að settar verði reglur sem takmarki umfang frádráttar vaxtagjalda vegna lánaviðskipta við tengda aðila.

Þó leggur ráðið áherslu á að um leið verði ný skilgreining á samstæðuhugtakinu skilgreind í lögum og vísar ráðið þar til að rétt væri að líta til laga um ársreikninga og að skilgreining félagasamstæðu í þeim lögum verði innleidd í tekjuskattslög.

Skekkir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja

Núverandi fyrirkomulag skekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, þunn fjármögnun sé ekki möguleg minni fyrirtækjum sem einungis starfi hér á landi, meðan fyrirtæki sem hafi starfsemi í fleiri löndum en Íslandi geti nýtt sér þetta skattahagræði.

Einnig sé ljóst að samanburðarlöndin hafi lögfest áþekkar reglur, þó framkvæmd þeirra sé ólík milli ríkja.