Á næstu árum munu evrópskir bankar þurfa að auka við eigið fé sitt um 120 milljarða evra eða sem nemur um 14.740 milljörð­um íslenskra króna miðað við gengi krónunnar þegar þetta er ritað. Til samanburðar var eigið fé íslensku bankanna þriggja tæplega 5,4 milljarðar evra við lok árs 2016 á gengi þess tíma.

Frá þessu er greint í nýrri skýrslu frá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey en þar er lagt mat á væntanleg áhrif af breytingum á alþjóð­ legu regluverki banka en breytingarnar munu að líkindum hafa áhrif á íslenska banka og arðgreiðslugetu þeirra.

Breytingarnar hafa verið kallaðar Basel IV af fólki í bankageiranum en eftirlitsaðilar vilja meina að þær endurspegli ekki kaflaskil í regluverkinu og séu því aðeins endurbætur á Basel III. Sumir hafa jafnvel kallað þær Basel­ 3,5. Basel III var innleitt á Íslandi árið 2016 og hafði í för með sér hækkun á eiginfjárkröfu íslenskra banka í gegnum svokallaða eiginfjárauka.

Íslensku bankarnir hafa þó eitt hæsta eiginfjárhlutfall í heimi og munu verða í algjörum sérflokki þegar Basel IV verður komið í notkun. Í nýju breytingunum er ekki um að ræða eiginlega aukningu á eiginfjárkröfum heldur eru breytingar fyrst og fremst að eiga sér stað á stöðlum og reiknireglum í áhættugreiningu banka. Þannig mun uppfærða regluverkið verða til þess að almennt eigið fé þáttar 1 verður alla jafna metið lægra ef engar breytingar eiga sér stað á efnahagsreikningi banka og um leið draga úr arðsemi eiginfjár.

Að með­altali áætlar McKinsey að almennt eigið fé þáttar 1 dragist saman um 3,9 prósentustig, þ.e. fari úr 13,4% niður í 9,5% við innleiðingu breytinganna hjá evrópskum bönkum. Jafnframt eru niðurstöðurnar þær að arðsemi eigin fjár dragist saman um 0,6 prósentustig, þ.e. fari úr 8% niður í 7,4%. Enn fremur að evrópskir bankar muni þurfa að bæta við sig 120 milljörðum evra í eigið fé til þess að ná áætluðu lágmarkshlutfalli sem er 10,4%.

Mikið var rætt um arðgreiðslugetu banka í aðdraganda kosninga og hversu mikið fjármagn væri hægt að sækja þangað með því að endurskipuleggja efnahagsreikninginn. Í grein á vef Samtaka fjármálafyrirtækja er það mat Yngva Arnar Kristinssonar að umfram eigið fé íslenskra banka sé um 154 milljarðar. Miðað við þá sviðsmynd sem Viðskiptablaðið setur upp gæti arðgreiðslugeta íslensku bankanna lækkað um allt að 18 milljarða í kjölfar innleiðingar á nýja regluverkinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .