Leiðtogar ríkja sem aðild eiga að Evrópusambandinu eru sagðir þrumu lostnir yfir góðu gengi öfgahópa og flokka sem andsnúnir eru Evrópusambandinu í kosningum innan aðildarríkjanna til Evrópuþingsins um síðustu helgi. Þjóðarleiðtogarnir samþykktu í gær að grípa til aðgerða til að endurheimta það traust almennings á ESB sem virðist hafa verið lítið miðað við niðurstöður kosninganna.

Blaðamaður bandaríska vikuritsins Time tekur djúpt í árinni á vefsíðu blaðsins í umfjöllun sinni um niðurstöður kosninganna og segir þær skell. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna verði að taka sig saman í andlitinu og breyta sambandinu ellegar gætu þetta hafa verið síðustu kosningar ESB-ríkjanna.

Í umfjöllun Reuters-fréttastofunnar um kosningarnar og viðbrögð leiðtoga ESB-ríkjanna segir að þótt ráðandi flokkar sitji enn á Evrópuþinginu þá hafi þeir misst meirihluta sinn. Þá sé skarð sett í samstöðu þeirra með þeim sætum sem andstæðingar ESB-aðildar einstakra ríkja, svo sem í Danmörku, Bretlandi og Frakklandi, náðu á Evrópuþinginu.

Reuters segir aðhaldsaðgerðir í Evrópu í kjölfar fjárkreppunnar hafa ráðið miklu um niðurstöðu kosninganna. Draga verði úr þeim og leita leiða til að fjölga störfum til að sætta íbúa aðildarríkjanna.