Seðlabanki Brasilíu hækkaði dráttarvexti á kreditkortum um 10 prósentustig í dag. Þá eru vextirnir komnir í 414,3%, á ársgrundvelli. Business Insider greinir frá þessu.

Samkvæmt könnun sem blaðið vitnar til eru sambærilegir vextir um 25-40% í hinum löndum Suður-Ameríku.

Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s lækkaði lánshæfiseinkunn Brasilíu niður í ruslflokk í september. Brasilía hefur verið í fjárfestingarflokki frá því í apríl 2008.

Ekki er langt síðan Brasilía þótti vera eitt af mest spennandi nýmarkaðsríkjunum. Hins vegar hefur lækkandi hrávöruverð og há verðbólga haft slæm áhrif á efnahaginn þar. Þá hefur mikil spilling einnig fælt fjárfesta frá.

Brasilíski real-inn hefur veikst um tæp 70% gagnart Bandaríkjadal á einu ári.