Reynir Traustason, ritstjóri DV, og Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, þurfa að greiða Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byrs, samtals 2 milljónir króna, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Þar af eru 300 þúsund krónur í miskabætur, 400 þúsund krónur til að standa straum af birtingu dóms og forsendna hans og 1366 þúsund krónur í málskostnað. Þetta kemur fram í dómnum, sem VB hefur undir höndum.

Eftir að umfjöllunin birtist í DV í nóvember í fyrra stefndi Jón Þorsteinn DV ehf., Reyni Traustasyni og Inga Frey Vilhjálmssyni vegna umfjöllunar blaðsins um meint mörg hundruð milljóna króna gjaldeyrisviðskipti Jóns Þorsteins. Jón Þorsteinn krafðist þriggja milljóna króna í skaðbætur.

Dómari dæmdi eftirfarandi ummæli á forsíðu blaðsins 12. og 13. nóvember í fyrra dauð og ómerk. Þau voru:

  • Laumaði stórfé úr landi.
  • Dulbúið sem lánaviðskipti.
  • Hundruð milljóna millifærð.

Þá voru eftirtalin ummæli á blaðsíðu 8 í blaðinu 12.-13. nóvember dæmd dauð og ómerk:

  • Jón Þorsteinn Jónsson hefur staðið í hundruð milljóna fjármagsflutningum frá Íslandi á síðastliðnum árum í tráissi við gjaldeyrishaftalögin
  • Hefur flutt hundruð milljóna úr landi.
  • Þegar fjármunirnir eru komnir frá Íslandi og inn á erlenda bankareikninga greiðir lántakandinn peningana aftur til lánveitandas.
  • Jón Þorsteinn Jónsson fyrrverandi stjórnarformaður Byrs og einn af erfingjum Nóatúns á sínum tíma, hefur flutt mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri frá Íslandi á þessu ári og því síðasta.
  • Eini tilgangurinn með viðskiptunum er að koma gjaldeyri út úr landinu í trássi við höftin þó svo að viðskiptin sé(u) skilgreind sem lán.