*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 30. október 2020 14:36

Þurfa að greiða Þorsteini 2,7 milljónir

Seðlabankinn sýknaður í héraðsdómi af 316 milljóna kröfu Samherja um bætur, en forstjórinn fær skaða- og miskabætur.

Ritstjórn
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja barði í borð í umræðum fyrir dómi vegna málsins.
Haraldur Guðjónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Seðlabanka Íslands af kröfum útgerðarfélagsins Samherja um 316 milljóna skaða- og miskabætur en gert stofnuninni að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra félagsins skaða- og miskabætur upp á 2,7 milljónir króna að því er RÚV greinir frá.

Töluverður hiti var í umræðum um málið svo dómari þurfti að biðja um að umræðan væri við stofuhita en Þorsteinn Már barði í borð þegar síðara Samherjamálið svokallaða var dregið inn í málflutning verjanda Samherja.

Krafa Samherja og Þorsteins Más var vegna ákvörðunar Seðlabankans um að sekta Samherja um 15 milljónir fyrir meint brot á gjaldeyrislögum þó engin gild heimild væri til í lögum fyrir sektinni. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma neitaði Þorsteinn Már og Samherji sök í málinu harðlega og kallaði hana herferð.

Þorsteinn Már var jafnframt sjálfur sektaður um 1,3 milljón króna en sú sekt var einnig afturkölluð. Í stefnunni nú krafðist Samherji þess að fá 306 milljónir í skaðabætur og 10 milljónir í miskabætur en Þorsteinn Már krafðist hann 5 milljóna í skaðabætur og 1,5 milljónar í miskabætur.

Lögmaður Seðlabankans dró efnisatriði hins svokallaða síðara Samherjamáls, um ásakanir um mútur og spillingu í starfsemi fyrirtækisins í Namibíu sem fjallað var um í fréttaskýringarþættinum Kveik, inn í málflutning sinn fyrir dóminum en Þorsteinn Már sagði þau mál húsleitinni óviðkomandi enda snerist hún um meinta undirverðlagningu á fiski til útflutnings.