*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 30. júlí 2020 13:10

Þurfa að loka verði reglur hertar frekar

World Class verður áfram opið og öllum reglum verður fylgt. Björn Leifsson segir félagið hafa tapað 600 milljónum í vor.

Magdalena A. Torfadóttir
Björn Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi líkamsræktarstöðvarinnar World Class.
Haraldur Guðjónsson

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi líkamsræktarstöðvarinnar World Class, segir að fyrirtækið muni ráðast í sömu aðgerðir og það gerði í vor þegar 100 manna fjöldatakmarkanirnar voru í gildi.

Klukkan 11 í dag kynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hertar samkomutakmarkanir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Einn liður í þessum aðgerðum var að líkamsræktarstöðvum yrði annað hvort gert skylt að loka eða sótthreinsa tækin milli gesta.

„Auðvitað leggst þetta illa í mig en við munum að sjálfsögðu fylgja settum reglum," segir Björn í samtali við Viðskiptablaðið og bætir við að fyrirtækið hafi ávallt hugað vel að sóttvörnum.

„Við höfum verið dugleg að halda spritti og hreinsiefnum að fólki og hvetja þau til að nota það. Það verður ítrekað og aukið."

Björn segist jafnframt vona innilega að fjöldatakmarkanirnar yrði ekki hertar frekar. „Það myndi einfaldlega þýða lokun hjá okkur en ég vona að til þess komi ekki. Samkomubannið í vor var mikið högg fyrir okkur og í þessar vikur sem var lokað töpuðum við 600 milljónum króna."