Boeing sér fram á að þurfa að punga út rúmlega 8 milljörðum dollara (990 milljörðum króna) í bótagreiðslur til þeirra flugfélaga sem hafa hlotið tjón af kyrrsetningu 737 Max flugvélanna. The Times greinir frá þessu, en blaðið heldur því jafnframt fram að reikningurinn hækki um 1 milljarð að hverjum mánuði liðnum sem vélarnar eru kyrrsettar.

Þessar tölur koma fram í skýrslu flughagfræðingsins Chris Tarry. Áætlaðar bótagreiðslur, vegna þeirra 371 Max flugvéla sem voru kyrrsettar og þeirra 394 véla sem ekki hefur verið hægt að afhenda vegna kyrrsetningarinnar, eru því komnar vel fram úr þeim 4,9 milljörðum dollara sem Boeing lagði til hliðar á síðasta ári.

Þessi kostnaðaráætlun Boeing gerði ráð fyrir að Max þoturnar yrðu komnar í loftið undir lok árs 2019 eða í byrjun árs 2020. Í dag liggja hins vegar engar upplýsingar fyrir frá alþjóðlegum flugmálayfirvöldum um það hvenær þoturnar fá grænt ljós til að fara í loftið á nýjan leik. Ef mið er tekið af því, auk þess sem Ryanair reiknar ekki með 737 Max þotunum í sumaráætlun sinni, má gera ráð fyrir að Boeing þurfi að uppfæra kostnaðaráætlun sína vegna bótagreiðslna nokkuð hressilega.